Staða ferðaþjónustunnar var sérstaklega rædd á fundinum í morgun og bað Gylfi fundarmenn að fylgjast með stöðu flugfélagsins. Jafnframt velti prófessorinn upp spurningunni hvenær, eftir áföll síðustu missera, eiginfjárstaða Icelandair væri komin á hættulegt stig.
Sjá einnig: Má ekki veðja þjóðarbúinu á bætur Icelandair frá Boeing
„Mig langar sérstaklega að beina athygli ykkar að þessu stóra flugfélagi sem að við byggjum svo mikið á. Hvað er að gerast þar? Ef þið reiknið fram í tímann, hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig,“ spurði Gylfi.

Bogi segir Gylfa ekki hafa falast eftir upplýsingu um stöðu Icelandair í aðdraganda fundarins, sem hefði eðlilegra að mati forstjórans. Þannig segist Bogi ekki vita hvaða greiningu Gylfi gerði áður en prófessorinn „setti þetta fram með þessum hætti,“ eins og Bogi kemst að orði við Fréttablaðið.
Þvert á móti standi Icelandair Group sterkt gagnvart áföllum að sögn Boga, ekki síst vegna stefnu félagsins um að búa ætíð að sterkri lausa- og eiginfjárstöðu. „Við fylgjum þessari stefnu markvisst og í lok júní vorum við með tæplega 30 milljarða króna í lausafé, að meðtöldum óádregnum lánalínum, og yfir 50 milljarða í eigið fé. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður,“ segir Bogi við Fréttablaðið.
Bréf í Icelandair Group féllu um 3,25 prósent í dag í 70 milljón króna viðskiptum. Hvort hinum „óvarlegu“ ummælum Gylfa Zoëga eða áframhaldandi áhyggjum af þróun olíuverðs, sem höfðu áhrif á gengi bréfanna í upphafi vikunnar, sé um að kenna verður þó ósagt látið.
Upptöku af fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun má sjá hér að neðan.