Viðskipti innlent

Stofnar fé­lag um olíu­leit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heiðar Guðjónsson hefur verið áberandi í umræðu um norðurslóðir og olíuleit undanfarin ár.
Heiðar Guðjónsson hefur verið áberandi í umræðu um norðurslóðir og olíuleit undanfarin ár. Arctic Frontiers

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Sýnar hefur stofnað olíuleitarfélagið Dreka Kolvetni ehf. Greint er frá stofnun félagsins í Lögbirtingablaðinu í dag.

„Tilgangur félagsins er olíuleit og -vinnsla og tengd starfsemi, þ.m.t. rekstur skrifstofu, eigna og lánastarfsemi,“ segir um tilgang félagsins.

Heiðar sem var um árabil stjórnarformaður Eykon Energy sem leitaði að olíu á Drekasvæðinu hefur verið áberandi í umræðunni um olíuleit undanfarið. Hann hefur meðal annars gagnrýnt umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra vegna ummæla þess síðarnefnda.

Árið 2018 afturkallaði Orkustofnun leyfi Eykons til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu eftir að kínverska olíufyrirtækið CNOOC og norska ríkisolíufélagið gáfu eftir sín leyfi.

„Ef við við hefðum haldið okkar striki en ekki hætt árið 2018 þá værum við núna byrjuð að framleiða olíu,“ sagði Heiðar í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl.

„Ef þetta eru tíu milljarðar tunna og framleiðslukostnaðurinn 20 til 25 dollarar á tunnuna og heimsmarkaðsverðið 65 dollarar þá eru 450 til 500 milljarðar dollara til skiptanna. Þessi leyfi eru þannig að ríkið tekur helminginn af rekstrarhagnaðinum. Íslenska þjóðin væri þá að fá 225 til 250 milljarða dollara yfir um 20 ára tímabil. Þetta eru um það bil öll útgjöld ríkisins í 20 ár.“

Heiðar sagði í viðtali við Vísi í ágúst að olíuvinnsla á Drekasvæðinu væri aftur komin á borðið. Fram kom í máli ráðherra í Morgunblaðinu um svipað leyti að hver sem er gæti sótt um leyfi til olíuleitar, farið í mælingar og jafnvel grunna borun á hafnsbotni.

Heiðar sagðist bjartsýnn á að fá stóra og sterka aðila, alþjóðleg fyrirtæki og viðurkennda sérfræðinga, hingað til lands að sækja um vinnslu- og leitarleyfi.

„Vonandi bara núna í vetur þá verður hægt að koma með aðila sem eru algjörlega upplýstir um hvernig jarðfræðin er þarna, og hvernig verklagið þarf að vera og annað. Það tekur alltaf smá tíma að koma þessum upplýsingum alla leið, en það eru aðilar sem eru búnir að vera skoða þetta, og eru byrjaðir að skoða þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×