Skoðun

Borgarlínan

Bryndís Friðriksdóttir skrifar

Borgarlínan gengur út á að gera almenningssamgöngur að þægilegum og aðgengilegum ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Með Borgarlínu verða ferðir vagna tíðar og áreiðanlegar þar sem sérrými fyrir vagna Borgarlínu tryggja að þeir munu geta komist á milli staða á annatíma án áhrifa umferðarþunga á öðrum akreinum.

Borgarlínan mun ásamt Strætó mynda heilstætt net almenningssamgangna. Strætó vinnur nú að breytingu á leiðarneti með tilkomu Borgarlínu, Þar er gert ráð fyrir 7 stofnleiðum og 11 almennum leiðum Strætó. Stofnleiðir breytast í Borgarlínuleiðir eftir því sérrými Borgarlínu byggist upp. Almennar leiðir Strætó munu þjóna hverfum sem verða ekki í göngufæri við Borgarlínu.

Stofnleiðirnar mynda burðarásinn í leiðanetinu með því að aka um þéttbyggð svæði og tengja saman mismunandi hverfi höfuðborgarsvæðisins með tíðum ferðum frá morgni til kvölds.

Almenningssamgöngur verða því raunhæfur og þægilegur valkostur fyrir fleiri íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Göturýmið

Á leiðum Borgarlínu þarf að endurhanna göturýmið og verður lögð áhersla á greið sérrými fyrir vagnanna og öruggar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Einnig verður lögð áhersla á að stöðvar verði öruggar og í aðlaðandi umhverfi.

Þar sem því verður komið við verða Borgarlínubrautir í miðju götuþversniði, með almenna umferð til hliðar, það er svokallað og kjörþversnið. Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir að sú lausn sé öruggari og hefur í för með sér minni tafir á gatnamótum fyrir umferð vagnanna. Ekki reynist unnt að koma kjörþversniði fyrir allsstaðar og verður þá horft til annarra lausna eins og að hafa borgarlínubrautir í jöðrum þversniðsins, hafa Borgarlínu í blandaðri umferð eða á sérstökum Borgarlínugötum.

Það fylgir því sveiganleiki að útfæra borgarlínu sem kerfi vagna á hjólum í stað léttlestar. Vagnar Borgarlínu geta ekið inn og út úr sérrýminu sem eykur skilvirkni og gerir Borgarlínu kleift að ná til fleiri farþega á stærra svæði.

Höfundur er svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni.




Skoðun

Sjá meira


×