Skoðun

Aðvörunarorð Rutte, fram­kvæmda­stjóra NATO

Arnór Sigurjónsson skrifar

Mark Rutte, framkvæmdstjóri Atlantshafsbandalagsins heimsótti Ísland fimmtudag 27. nóvember s.l. Í samtali við Mbl. sagði Rutte að allri Evrópu stafaði ógn af Rússlandi og útþenslustefnu þeirra. „Haldi nokkur á Íslandi að hann sé fjarri vígaslóðum heimsins, þá er það alrangt. Aðildarríki NATO eru nú öll á austurvígstöðvum. Og ástæða þess er einföld. Rússar hafa stóraukið umsvif sín.“ Á sama tíma undirstrikar hann nauðsyn þess að Evrópuríki stórefli eigin varnarviðbúnað. Enn fremur segir hann að „falli Úkraína þá mun það hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér. Og Vesturlönd mega hreinlega ekki láta það gerast.“

Þegar Rutte segir þetta að þá hafa Bandaríkjamenn lagt fram „friðartillögur“ í samvinnu við Rússa um endalok stríðsins í Úkraínu sem innihalda nánast allar ítrustu kröfur árásaraðilans án þess að ráðfæra sig við NATO eða Evrópu hvað þá Úkraínu sjálfa. Tekist hefur í kjölfarið að aðlaga þessa tillögugerð að nokkru leyti til hagsbóta fyrir öryggishagsmuni Evrópu og Úkraínu, en óvíst er um framhaldið sem mun væntanlega skýrast eftir fundi sendinefndar Úkraínu með Bandaríkjamönnum í byrjun desember. Rússar segja tillögu þá sem gerð var að þeirra undirlagi sé góður grunnur fyrir samningaviðræður um frið í Úkraínu, en á sama tíma hefur Pútín, forseti Rússlands undirstrikað að gefi Úkraína ekki eftir þau landsvæði í Luansk og Donetsk héruðum sem þeir hafa ekki enn hertekið, verði það gert með hervaldi. Með öðrum orðum að þá eru litlar líkur á því að Rússar samþykki frið við Úkraínu nema að landvinningar þeirra gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki fylgi með. Leiðtogar Evrópu hafa varað við því að ríki eins og Rússland komist upp með að breyta viðurkenndum landamærum með hervaldi og fari svo er hætta á að það sé undanfari annarra árása gegn Evrópu innan þriggja til fimm ára.

Hver er svo staða mála? Bandaríkjamenn virðast vera á bandi Rússlands og öryggishagsmunir Evrópu og Úkraínu eru léttvæg í því samhengi. Trump, forseti hefur hætt allri vopnaaðstoð til Úkraínu nema þeirri sem Evrópa greiðir honum fyrir. Hann vill hefja viðskipti við Rússland á ný, afnema viðskiptaþvinganir sem á þeim hvíla og veita þeim aftur aðild að G-8 hópnum. Evrópusambandið sem hefur heitið Úkraínu órofandi stuðningi er ekki sameinað í þeirri afstöðu. Gleggsta dæmið eru átökin sem eiga sér stað um fjárhagsstuðning til landsins, en þar hefur Belgía neitað að nota vexti af frystum inneignum Rússa í belgíska seðlabankanum til aðstoðar Úkraínu. Þá hefur Orban, forseti Ungverjalands verið til trafala í öllum málum er varða Úkraínu, en hann er ekki einn um það. Með öðrum orðum að þá er aðstoð Evrópu við Úkraínu, þar með talin vopnaaðstoð verið of lítil og kemur iðulega of seint. Spyrja má hvenær Evrópa mun skipa sér við hlið Úkraínu ef verstu sviðsmyndir yfirstandandi átaka raungerast? Hvað Atlantshafsbandalagið varðar að þá er það ekki beinn þátttakandi í vörnum Úkraínu þó svo að það hafi gegnt ákveðnu hlutverki við samræmingu á hernaðaraðstoð annarra ríkja. Engar líkur eru á að það breytist á meðan bandarísk stjórnvöld styðja Rússa og Úkraína stendur utan bandalagsins.

Í samtölum við Rutte undirstrikuðu íslensk stjórnvöld, að sögn, mikilvægi íslenska öryggismódelsins fyrir öryggi og varnir landsins sem er að útvista alfarið öllum vörnum landsins, nema þeim sem sérsveit Ríkislögreglustjóra getur veitt, til erlendra aðila, þ.e. NATO og Bandaríkjanna. Varnaðarorð Rutte um þá hernaðarvá sem við stöndum frammi fyrir virðist engu breyta né heldur misbrestir þeirra bandalaga sem við treystum á.

Er þetta trúverðug öryggis-og varnarmálastefna fyrir Ísland og hvað ef hún reynist haldlaus?

Höfundur er áhugamaður um íslensk öryggis- og varnarmál.




Skoðun

Sjá meira


×