Skoðun

Ösku(r)dagur

Bjarni Karlsson skrifar
Í þrjú þúsund ára gamalli smásögu af Jónasi í hvalnum klæðist konungurinn í Níníve hærusekk, eys yfir sig ösku og mælir svo fyrir að borgarbúar skuli gera eins og hann; iðrast ofbeldis og snúa sér frá sinni illu breytni. Það fylgir ekki öskudagssögunni frá Níníve hvert ofbeldið var en ljóst að það var komið á almannavarnastig svo að Guð sendi Jónas á svæðið með aðvörunarorð: „Eftir fjörutíu daga verður Níníve lögð í rúst.“

Umliðið sunnudagskvöld valdi íslenska þjóðin gamalt öskudagsþema fyrir Júróvissíón: „Hatrið mun sigra, Evrópa hrynja.“ Nýir og áhugaverðir listamenn hafa kvatt sér hljóðs og ljóst að þarna fer fólk sem kann til (sviðs)verka. Tónninn sem þau slá er siðferðilegur. Skellihlæjandi og í fúlustu alvöru nefna þau alhliða blekkingar, einhliða refsingar og auðtrúa aumingja. Og ég játa að þegar ég heyri fimm ára sonarson minn kyrja bjartri barnsrödd: „Flóttinn tekur enda. Tómið heimtir alla. Hatrið mun sigra!“ þá fer áður óþekktur hrollur um innyfli mín. Já, það eru nefnilega innyflin, iðrin í kviðnum, sem virkjast þegar við iðrumst. Iðrun er að vera í tengslum við eigin líffæri og þær tilfinningar sem iðrin miðla.

Nínívebúar iðruðust í sekk og ösku og Guð mælti: „Ætti ég ekki að sjá aumur á Níníve, hinni miklu borg, þar sem meira en hundrað og tuttugu þúsndir manna búa, […] og að auki fjöldi dýra?“ Þannig risu Nínívemenn úr öskunni og endurheimtu tilveru sína þegar þeir höfðu iðrast og látið af ofbeldinu.

Og okkar menn munu öskra á fornum Biblíuslóðum:

Hatrið mun sigra

Evrópa hrynja

Vefur lyga

Rísið úr öskunni

Sameinuð sem eitt




Skoðun

Sjá meira


×