Skoðun

Stöðvum ólög­legan flutning barna

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Í síðustu viku var skýrsla starfshóps um dvalarleyfi kynnt. Hún ber heitið Ísland í örum vexti og margt áhugavert kemur fram í henni. Meðal annars er bent á 25 dæmi um misræmi við Norðurlöndin í lögum og framkvæmd okkar Íslendinga. Ég er nú þegar byrjuð að bregðast við þessum séríslensku reglum og er með fimm frumvörp um útlendingamál á þessu þingári.

Dæmi um séríslenska framkvæmd er hvernig við stöndum að fjölskyldusameiningum.

Óskylt fólk í fjölskyldusameiningu

Íslensk stjórnvöld hafa ekki látið framkvæma DNA rannsókn á fólki áður en það fær veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þetta er er ekki í takt við hin Norðurlöndin.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að á annan tug barna, sem vitað er um, hefur komið hingað til lands og niðurstöður DNA rannsóknar hafa síðar staðfest að ekki eru fjölskyldutengsl við þá sem þau eru að sameinast.

Þetta opnar á leiðir fyrir smyglara til að flytja t.d. börn ólöglega á milli landa. Oft leikur grunur á mansali, þó rannsaka þurfi málin betur til að fullyrða um það.

Þetta á auðvitað við um stærri hópa en börn. Skipulagðir brotahópar vita hvaða lönd eru með veikt kerfi. Íslensk stjórnvöld ætla ekki lengur að vera veikur hlekkur í keðjunni. Ekki á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Lausnin: Ísland gerir samning um DNA-sýnatökur erlendis

Ég hef lagt þunga áherslu á að þessu verði kippt í lag. Nú er dómsmálaráðuneytið í samningsviðræðum við viðurkennda alþjóðastofnun um að framkvæma DNA-sýnatökur fyrir íslensk stjórnvöld erlendis.

Með þessu munum við tryggja að fólk sem kemur hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar tengist í raun fjölskylduböndum og sé í raun og veru blóðskylt.

Ég bind vonir við að skrifað verði undir þennan samning á næstu vikum.

Viðreisn lætur verkin tala. Við greinum ekki bara vandann og bendum á hann. Við leysum málin líka.

Höfundur er dómsmálaráðherra. 




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×