Skoðun

16 daga á­tak gegn kyn­bundnu of­beldi

Guðbjörg S. Bergsdóttir og Rannveig Þórisdóttir skrifa

Í dag, 25. nóvember, er baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og markar dagurinn jafnframt árlega upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er alþjóðlegt og miðar að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Í ár er átakið tileinkað baráttu gegn stafrænu kynferðisofbeldi gegn konum og stúlkum en með aukinni tækniþróun hefur skapast nýr vettvangur þar sem kynbundið ofbeldi og áreitni þrífst óáreitt og skerðir jafnvel möguleika kvenna til að taka þátt í opinberu lífi, þaggar niður í þeim og fælir þær frá því að taka að sér forystuhlutverk.

Hvað vitum við um stafrænt kynferðisofbeldi?

Þrátt fyrir að áhyggjur af stafrænu kynferðisofbeldi hafi aukist verulega á síðustu árum, einkum vegna ofbeldis gegn konum og stúlkum, hefur skort á rannsóknum á tíðni þess, útbreiðslu og áhrifum, sérstaklega meðal fullorðinna einstaklinga.

Ríkislögreglustjóri og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa síðustu ár gert þolendakönnun þar sem landsmenn 18 ára og eldri eru spurðir út í reynslu af afbrotum, viðhorf til lögreglu og öryggistilfinningu. Árið 2017 var fyrst spurt út í reynslu af stafrænu kynferðisofbeldi með því að spyrja þátttakendur að því hvort þeir hafi orðið fyrir því að einhver hafi deilt af þeim, án þeirra leyfis, kynferðislegu myndefni eða myndefni sem sýndi nekt og olli ama, vanlíðan skömm, óþægindum eða reiði. Spurt er um reynslu þeirra árið á undan. Einnig er spurt hvort þátttakendur hafir orðið fyrir hótun um slíkt. Þá eru þeir sem hafa orðið fyrir slíku eða hótun um slíkt spurðir út hversu mikil eða lítil áhrif það hafði.

Ungar konur líklegastar til að verða fyrir stafrænum kynferðisbrotum

Þegar niðurstöður úr könnuninni eru skoðaðar fyrir síðustu ár má sjá að um 0,5% þátttakenda hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og 2,3% hafa orðið fyrir hótun um slíkt. Niðurstöður benda til þess að karlar jafnt sem konur verði fyrir stafrænu kynferðisofbeldi eða hótun um slíkt. Þannig má gera ráð fyrir að árlega verði 0,6% karla og 0,5% kvenna fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og 2,2% karla og 2,4% kvenna fyrir hótun. Þá eru einstaklingar á aldrinum 18 til 25 ára líklegastir bæði til að segjast hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og hótun um slíkt.

Þegar gögnin eru skoðuð út frá aldri og kyni má að auki sjá að konur á aldrinum 18-25 ára skera sig út með að vera líklegri til að hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi en aðrir, en slíkt ofbeldi dreifist meira á aldurshópana meðal karla.

Hótanir hafa meiri áhrif á konur

Rannsóknir hafa bent til þess að stafrænt kynferðisofbeldi geti haft víðtæk áhrif á líf þeirra sem fyrir þeim verða og eru þessi áhrif ekki frábrugðin þeim áhrifum sem annað kynferðisofbeldi hefur. Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í það hversu mikil eða lítil áhrif myndbirting eða hótun um slíkt hafði á þau. Fram kemur að 62% þeirra sem höfðu orðið fyrir myndbirtingu töldu það hafa haft mjög eða frekar mikil áhrif á þau og 50% þeirra sem höfðu orðið fyrir hótunum.

Yfir helmingur bæði karla og kvenna segja myndbirtingu hafa haft mjög eða frekar mikil áhrif á sig, en fleiri konur en karlar segja svo vera. Þannig segja 68% kvenna myndbirtingu hafa mjög eða frekar mikil áhrif á líðan þeirra samanborið við 56% karla. Munurinn er talsvert meiri þegar litið er til áhrifa af hótun um birtingu stafræns kynferðisofbeldis en 63% kvenna segja slíkar hótanir hafa mjög eða frekar mikil áhrif en 35% karla segja hið sama. Erfitt er að greina mynstur áhrifa á líðan milli aldurshópa þegar um er að ræða myndbirtingu þar sem svörin eru fá, en þegar greindar eru hótanir um myndbirtingu má sjá að áhrifin á líðan er mest á yngsta aldurshópinn, en 69% í aldurshópnum 18-25 ára segja áhrifin frekar eða mjög mikil og 64% einstaklinga á aldinum 26-35 ára, en hlutfallið var mun lægra í eldri aldurshópum.

Þessi stutta samantekt sýnir að hér á landi beinast stafræn kynferðisbrot bæði gegn körlum og konum og að brotin beinast oftast gegn yngri aldurshópum, þá sérstaklega gegn ungum konum. Einnig sýna niðurstöður að stafrænt kynferðisofbeldi hefur mjög eða frekar mikil áhrif á líðan bæði karla og kvenna en hótun um myndbirtingu hefur mun meiri áhrif á líðan kvenna en karla.

Hafa ber í huga að hér er ekki skoðað eðli ofbeldisins þ.e. hvort um sé að ræða að ofbeldinu sé beitt af einstaklingi í nánu sambandi, hvort um sé að ræða annað kynbundið ofbeldi, ástarsvik eða um sé að ræða annars konar tengsl.

Nánari samantekt má finna á vef lögreglunnar, www.logreglan.is

Höfundar eru Guðbjörg S. Bergsdóttir, deildarstjóri gagnavísinda- og upplýsingadeildar hjá embætti ríkislögreglustjóra, og Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri hjá embætti ríkislögreglustjóra.




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×