Skoðun

Sirkus Daða Smart

Jens Garðar Helgason skrifar

Að lesa fréttir í fjölmiðlum þessa dagana, þar sem landsmenn eru farnir að hamstra vörur áður en skattar og gjöld vinstristjórnarinnar hækka, eru óneitanlega farnar að minna á textann í laginu Sirkus Geira Smart, „og verðið sem var leyft í gær er okkar verð að morgni“.

Skipafélögin hafa ekki undan að koma nýjum bílum til landsins áður en vörugjöldin hækka verð á bílum uppúr öllu valdi. Fjölskyldubíllinn mun hækka um eina til tvær milljónir eftir áramót, ef ríkisstjórnin situr föst við sinn keip. Einhvern veginn er þetta samt ekki hækkun á „venjulegt fólk“ eins og formenn Viðreisnar og Samfylkingar hafa svo oft sagt. Þeim virðist fækka með hverjum deginum sem flokkast sem venjulegt fólk hjá verkstjórninni.

Það sem allir sjá, nema fjármálaráðherra og verkstjórnin öll, að það munu aldrei innheimtast 7,5 milljarðar í hækkun á vörugjöldum á ökutæki á næsta ári. Bílaleigurnar eru að kaupa bíla núna, bændur eru að kaupa fjór – og sexhjól núna, almenningur er að endurnýja bílana núna. Allir að tryggja sig á gamla verðinu. Eina sem hefst uppúr þessari dellu vegferð er að vísitala neysluverðs mun líklega hækka og þ.a.l. verðtryggðar skuldir heimilanna, og forsendur kjarasamninga brostnar í framhaldinu. Eftir situr ríkissjóður tómhentur, en landsmenn með tvöfaldan skell.

Að fjármálaráðherra ætli að halda áfram að berja höfðinu við steininn fer líklega að verða einhverjum söngvaskáldum yrkisefni og þá er aldrei að vita að við fáum að heyra Sirkus Daða Smart á næstu misserum.

Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður norðausturkjördæmis.




Skoðun

Sjá meira


×