Skoðun

Slökkvum ekki Ljósið

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Í fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur stendur til að skerða stuðning til mikilvægra sjálfseignarstofnanna um hálfan milljarð króna. Þar er ráðist harðast að Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem greinist með krabbamein, en skera á niður stuðning til Ljóssins um 200 milljónir króna. Kaldar kveðjur inn í bleikan október.

Ljósið er einstök heilbrigðisstofnun sem þúsundir Íslendinga og aðstandendur þeirra hafa nýtt sér til stuðnings og endurhæfingar. Ljósið einblínir ekki bara á krabbameinsgreinda heldur hjálpar það einnig nánustu aðstandendum og leggur sömuleiðis mikla áherslu á að fá fleiri karlmenn til að leita sér aðstoðar, en ekki hefur verið vanþörf á.

Í Ljósinu fá krabbameinsgreindir andlegan og líkamlegan stuðning til að komast í gegnum veikindin og að komast aftur á fætur eftir glímuna við þennan illvíga sjúkdóm. Þannig kemst fólk fyrr út á vinnumarkaðinn og færist nær eðlilegu og daglegu lífi. Það liggur því alveg í augum uppi að þessar 200 milljónir skila sér margfalt til baka.

Það er löngu viðurkennt í nútímaheilbrigðiskerfi að skapandi iðja, hreyfing og félagslegur stuðningur í endurhæfingu bæta bæði líkamlega og andlega líðan. Rannsóknir hér heima og erlendis hafa sýnt fram á það og í skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að slík nálgun geti jafnvel dregið úr heildarkostnaði heilbrigðiskerfisins.

Einkaframtakið virðist því miður vera sem þyrnir í augum heilbrigðisráðherra en það yrði skelfilegt ef jafnmikilvæg stofnun og Ljósið yrði fyrst undir niðurskurðarhnífinn vegna skilningsleysis heilbrigðisráðherra á starfsemi þess.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×