Skoðun

Við eigum ekki efni á von­leysi né upp­gjöf

Magnús Magnússon skrifar

Ísrael er búið að tortríma Gaza. Allir lífsnauðsynlegir innviðir eru ónýtir, vatnsból og gróðurlendi eru menguð og skemmd. Búfénaður er dáinn og gróðurhúsin eru ónýt. Allir háskólar hafa verið sprengdir og heilbrigðiskerfið er í rúst eftir skipulagðar árasir á heilbrigiðisstarfsfólk og sjúkrahús. Ísraelar hafa stöðvað allan innflutning á mat, heilbrigðisvörum, vatni og rafmagni í meira en 60 daga. Allir eru vannærðir og börn eru byrjuð að svelta til dauða. Fjöldi þeirra barna sem verða hungurmorða mun aukast hratt og önnur börn munu bera merki þess alla ævi. Sprengjuárásir Ísraelshers munu drepa fleiri í hvert skipti vegna víxlverkandi áhrifa hungurs og sprengjusára.

Við höfum horft á þjóðarmorðið á Gaza í beinu streymi í 20 mánuði og aðgerðarleysi ríkisstjórna heimsins. Ráðamenn segja að aðgerðir séu ótímabærar, erfiðar og gagnslausar. Að það sé búið að gera svo margt og það þurfi að treysta á samtalið. Ráðamenn eru að ljúga. Við vitum að þjóðarmorð Ísraels verður stöðvað með alþjóðlegri sniðgöngu, útskúfun og einangrun Ísraels. Rekum Ísrael úr Sameinuðu þjóðunum, bönnum þeim að taka þátt í íþróttaviðburðum og hendum þeim úr Eurovision. Handtökum alla þá sem tekið hafa þátt í eða hvatt til þjóðarmorðsins á Gaza. Setjum viðskiptaþvinganir og slítum stjórnmálasambandi. Samtalið er búið. Rjúfum herkvínna á Gaza og sendum skipaflota Íslands með mat, lyf og aðrar nauðsynjavörur. Það er skylda okkar að stöðva þjóðarmorð.

Ísraelsher ætlar nú að innlima Gaza og klára þjóðernishreinsanirnar sem hófust fyrir 77 árum. Þetta verður að stöðva. Við ætlum ekki að vorkenna okkur. Eigum ekki efni á vonleysi né uppgjöf. Við skuldum Gaza hugrekki okkar, þrautseigju og þrótt. Gaza gefst ekki upp og við gefumst ekki upp.

Mótmælum við ríkisstjórnarfund á Hverfisgötu 4 klukkan 8:45 í fyrramálið, þriðjudaginn 6. maí og krefjumst þess að ríkisstjórnin beiti sér gegn þjóðarmorði Ísraels á Gaza.

Höfundur er stjórnarmeðlimur í Félaginu Ísland-Palestína




Skoðun

Sjá meira


×