Skoðun

Börn mega og geta til­kynnt sjálf um of­beldi á neti

Þóra Jónsdóttir skrifar

Öll viljum við hjálpa börnum sem beitt eru ofbeldi og áreiti og helst af öllu koma í veg fyrir það með öllu. En ef og þá þegar börn verða fyrir ofbeldi og áreiti verða þau að hafa greiða leið til að segja frá því, kalla eftir aðstoð og fá hjálp. Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi og þau eiga rétt á að fá aðstoð við að vinna sig frá þeirri erfiðu reynslu. Oft reyna börn að segja frá ofbeldinu og kalla eftir aðstoð frá fullorðnum og sínum nánustu. Börn fá ekki alltaf þá aðstoð sem þau þurfa á að halda því það er allur gangur á því hvort hlustað sé á það sem þau reyna að segja.

Ef ekki er brugðist við, þurfa börn líka að hafa leiðir til að bregðast við sjálf. Börn eiga rétt á því að kalla á aðstoð sjálf ef aðstandendur eða fólk í þeirra næsta umhverfi hjálpar ekki, og láta vita af ofbeldi gegn sér, á neti og annars staðar.

Ábendingalína Barnaheilla tekur við tilkynningum um ofbeldi og áreiti gagnvart börnum á neti og þangað geta börn líka tilkynnt sjálf, með beinum hætti. Ábendingalínan er aðgengileg öllum börnum og er aldursskipt; fyrir yngri en 15 ára, 15-17 ára og 18 ára og eldri.

Í tilefni alþjóðlega netöryggisdagsins, sem er í dag 7. febrúar, gefa Barnaheill – Save the Children á Íslandi út nýtt veggspjald sem dreift er í grunn- og framhaldsskóla, félagsmiðstöðvar og ungmennahús, íþróttahús og sundlaugar og hvarvetna þar sem börn sækja sér þjónustu og halda til.

Veggspjaldið er hannað með það í huga að einfalt sé fyrir börn að nýta sér það og komast með einu skanni í gegnum síma inn á Ábendingalínuna. Barnaheill auðvelda þannig börnum að leita sér aðstoðar lendi þau í vanda á neti eða verða fyrir ofbeldi, kynferðislegri áreitni eða tælingu.

Til Ábendingalínunnar er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni sem varðar börn á netinu, svo sem kynferðisofbeldi, tælingu, áreitni, hatursorðræðu, annars konar ofbeldi, einelti og fleira. Ábendingalína Barnaheilla sem rekin er í samstarfi við Ríkislögreglustjóra, er hluti af Netöryggismiðstöð SAFT, ásamt Heimili og skóla og Rauða krossinum sem rekur hjálparsímann 1717. Ábendingalínan er þátttakandi í alþjóðlegu neti ábendingalína um allan heim í gegnum regnhlífasamtökin INHOPE.

Barnaheill vinna að bættum réttindum barna og byggja allt sitt starf á Barnasáttmálanum. Samtökin hvetja öll til að hjálpast að við að vinna gegn ofbeldi á börnum og koma börnum til aðstoðar þegar þau segja frá.

Höfundur er verkefnastjóri Ábendingalínu Barnaheilla.




Skoðun

Sjá meira


×