Skoðun

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Fimmtudagar voru áður þekktir sem dagarnir sem sjónvarpið fór í frí. Það var að vísu fyrir mína tíð, en fimmtudagar halda þó áfram að setja mark sitt á frítíma fólks og í dag er fyrsti fimmtudagurinn þar sem opið verður til miðnættis í Laugardalslaug!

Fyrir sundáhugafólk eru þetta svo sannarlega gleðifréttir. Fyrir mig er þetta sérstaklega ánægjulegt. Hugmyndin um miðnæturopnun í sund kviknaði þegar klukkan var alveg að verða tíu eitt kvöld og ég þar með orðin of sein í sund enda fátt betra en að hefja daginn og enda með góðri sundferð. Í vor komst hugmyndin síðan inn á kosningastefnuskrá Framsóknar í Reykjavík og núna er hún orðin að veruleika.

Þó að hér sé ekki um að ræða stóran gjörning í stóra samhenginu þá felast í honum aukin lífsgæði. Sundlaugarnar hafa í gegnum tíðina verið samkomustaður Íslendinga og mörgum finnst fátt betra en að liggja í heita pottinum og slaka á. Núna fáum við aðeins meiri tíma til þess og getum tekið sundsprett um kvöld ef okkur sýnist svo. Þá fá að auki öll börn á grunnskólaaldri frítt í sund í Reykjavík frá og með 1. ágúst. s.l.

Hugmyndin um miðnætursund er ekki bara skemmtileg viðbót til afþreyingar og heilsubótar heldur líka áminning um að við öll getum haft áhrif á nærsamfélagið okkar með því að taka þátt. Ég vil því hvetja þig til að mæta á fundi stjórnmálaflokka og félagasamtaka til að segja frá því hvernig þú telur að bæta megi samfélagið okkar. Í krafti hugmynda og ólíkra sjónarmiða sem í fjöldanum finnast búum við saman til betra samfélag.

Það er glampandi sólskin í Reykjavík og því tilvalið að enda daginn í heitapottinum.

Sjáumst í sundi!

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar.




Skoðun

Sjá meira


×