Körfubolti

Mættu bæði með bikarinn og brotna hurð á sigurhátíðina sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Chicago Sky dansa af gleði á sigurhátíð sinni.
Leikmenn Chicago Sky dansa af gleði á sigurhátíð sinni. AP/Matt Marton

Chicago Sky varð WNBA-meistari í körfubolta á sunnudagskvöldið eftir sigur á Phoenix Mercury en liðsmenn Chicago liðsins héldu áfram að stríða tapsárum andstæðingum sínum þegar þær héldu sigurhátíð sína í gær.

Chicago Sky mætti nefnilega með brotna hurð á sigurhátíðina sína.

Eins og venjan er í Bandaríkjunum þá fara meistaraliðin út á meðal borgarbúa til að fagna titlinum og svo var einnig nú. Bikarinn var með eins og alltaf en þetta hlýtur að vera fyrsta hurðin sem fær að fara með.

Heimildir bandarískra fjölmiðla er að þarna hafi verið á ferðinni hurðin sem stærsta stjarna Phoenix Mercury liðsins braut í svekkelsi sínu eftir tapið.

Leikmenn Mercury voru mjög súrar eftir lokaleikinn þar sem þær misstu niður ellefu stiga forystu. Enginn þeirra mætti í viðtöl eftir leikinn.

Sú sem á að hafa brotið hurðina er Diana Taurasi, sem er af flestum talin vera besta körfuboltakona sögunnar en hún er langstigahæsti leikmaður WNBA frá upphafi.

Hin 39 ára gamla Taurasi talaði ekki við fjölmiðla eftir leikinn en mætti á blaðamannafund daginn eftir.

Þar játaði hún hvorki né neitaði að hafa brotið umrædda hurð í íþróttahöll Chicago Sky. „Það var fullt af hurðum þarna,“ sagði Taurasi.

Hlutirnir gengu ekki nógu vel hjá Taurasi í lokaúrslitunum. Hún fékk tæknivillu í fyrsta leikhluta í lokaleiknum fyrir að klappa fyrir dómara. Hún hafði áður ýtt sama dómara í leik tvö, óvart að hennar mati, en fékk fyrir yfir þrjú hundruð þúsund króna sekt.

Taurasi hitti aðeins úr 25 prósent skota sinna í þessum fjórða og síðasta leik og endaði með sextán stig og fjórar villur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×