Körfubolti

Stórleikur í beinni í nótt

Amare Stoudemire er aftur kominn í byrjunarlið Phoenix og hélt troðsýningu í upphafi leiks gegn San Antonio í gærkvöldi
Amare Stoudemire er aftur kominn í byrjunarlið Phoenix og hélt troðsýningu í upphafi leiks gegn San Antonio í gærkvöldi NordicPhotos/GettyImages

Það verður sannkallaður risaleikur í beinni útsendingu á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Digital Ísland í kvöld þegar tvö af stórliðum Vesturdeildarinnar etja kappi. Phoenix tekur þar á móti Dallas Mavericks, en þessi frábæru lið hafa hikstað verulega í byrjun tímabils og því verður allt undir í kvöld.

Dallas hefur tapað fjórum fyrstu leikjum sínum í deildarkeppninni og það er eitthvað sem enginn átti von á eftir að liðið fór alla leið í úrslitin í vor. Liðið hefur vissulega mætt sterkum liðum í fyrstu leikjunum, en pressan er sífellt að aukast á Dirk Nowitzki og félaga í Dallas. Liðið hefur aldrei áður í 27 ára sögu félagsins tapað fyrstu fjórum leikjum sínum á leiktíðinni.

Sömu sögu er að segja af Phoenix Suns, en liðið hefur aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum til þessa. Liðið tapaði fyrir San Antonio á útivelli liðna nótt þar sem úrslitin réðust í framlengingu. Liðinu hefur sérstaklega gengið erfiðlega að halda forystu í leikjunum til þessa, en Phoenix hefur klúðrað niður 19, 15 og 9 stiga forystu á einhverjum tímapunkti í síðustu þremur leikjum.

Það verður því mikið fjör á NBA TV klukkan 3:30 í nótt þegar liðin mætast í beinni útsendingu, en auk þessa verður risaleikur í Austurdeildinni þar sem Cleveland tekur á móti Chicago. Þá eigast líka við Golden State og sjóðheitt lið New Orleans, sem enn hefur ekki tapað leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×