Körfubolti

Besta byrjun í sögu Hornets

Chris Paul, leikstjórnandi Hornets og nýliði ársins í fyrra, heldur uppteknum hætti og fer fyrir sínum mönnum. Hann hefur nú fengið góða hjálp frá nýjum leikmönnum eins og Peja Stojakovic og Tyson Chandler.
Chris Paul, leikstjórnandi Hornets og nýliði ársins í fyrra, heldur uppteknum hætti og fer fyrir sínum mönnum. Hann hefur nú fengið góða hjálp frá nýjum leikmönnum eins og Peja Stojakovic og Tyson Chandler. NordicPhotos/GettyImages

New Orleans Hornets vann í nótt sinn fjórða leik í röð í upphafi leiktíðar í NBA og er þetta besta byrjun í sögu félagsins. Liðið skellti Golden State 97-93 á heimavelli í Oklahoma City þar sem Chris Paul skoraði 22 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir New Orleans en Baron Davis skoraði 22 stig fyrir Golden State.

Miami vann mjög nauman 90-87 sigur á Seattle á heimavelli sínum, en liðið var án Shaquille O´Neal sem er meiddur á hné. Dwyane Wade skoraði 31 stig fyrir Miami og James Posey skoraði sigurkörfuna með því að setja niður þrist í lokin. Rashard Lewis skoraði 23 stig fyrir Seattle.

Atlanta vann óvæntan sigur á Cleveland 104-95 á útivelli eftir framlengdan leik. Joe Johnson var frábær í liði Atlanta og tryggði liði sínu sigur í framlengingunni eftir að Tyronn Lue hafði jafnað í lok venjulegs leiktíma með erfiðu skoti yfir LeBron James. Johnson skoraði 25 stig, hirti 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Atlanta og Tyronn Lue skoraði 19 stig og gaf 11 stoðsendingar. LeBron James skoraði 34 stig fyrir Cleveland og Drew Gooden skoraði 21 stig og hirti 14 fráköst.

Philadelphia tapaði sínum fyrsta leik þegar liðið steinlá fyrir Indiana á útivelli 97-86 í leik sem var aldrei spennandi. Allen Iverson skoraði 20 stig fyrir Philadelphia og þeir Jermaine O´Neal og Rawle Marshall skoruðu 16 hvor fyrir Indiana.

Houston skellti Memphis á útivelli 86-80. Yao Ming skoraði 24 stig fyrir Houston en Stromile Swift skoraði 15 stig fyrir Memphis.

Loks vann LA Lakers sinn fjórða sigur í fimm leikjum með því að skella Minnesota 95-88. Kevin Garnett skoraði 26 stig og hirti 9 fráköst fyrir Minnesota, en Andrew Bynum átti sinn besta leik á ferlinum fyrir Lakers og skoraði 20 stig og hirti 14 fráköst. Kobe Bryant hafði fremur hægt um sig og skoraði 17 stig, Lamar Odom skoraði 15 stig og hirti 9 fráköst og Luke Walton skoraði 14 stig og hirti 9 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×