Neytendur

Aug­lýstu vörur á verði sem ekki stóð neyt­endum til boða

Atli Ísleifsson skrifar
Í svörum fyrirtækisins segir að auglýsingarnar hafi verið teknar úr birtingu á meðan á meðferð málsins stóð.
Í svörum fyrirtækisins segir að auglýsingarnar hafi verið teknar úr birtingu á meðan á meðferð málsins stóð. Google

Neytendastofa hefur slegið á putta verslunarinnar Á. Óskarssonar og Co í Mosfellsbæ eftir að hún auglýsti vörur á samfélagsmiðlum á verði sem ekki stóð neytendum til boða og sömuleiðis lægsta verð vöruflokks þar sem birt var mynd af talsvert dýrari vöru innan vöruflokksins.

Neytendastofa birti í morgun ákvörðun sína í málinu þar sem segir að stofnunin hafi talið að framsetning auglýsinganna hafi verið villandi og kynni að vekja þau hughrif hjá neytendum að hægt sé að fá myndbirta vöru á lægra verði en raunin væri.

Hefur Neytendastofa bannað Á. Óskarssyni og Co. að viðhafa slíka viðskiptahætti.

Í ákvörðuninni segir að á meðan á meðferð málsins stóð hafi auglýsingar Á. Óskarssonar verið teknar úr birtingu, en í svörum fyrirtækisins segir að auglýsingarnar hafi verið unnar af þriðja aðila.

Á. Óskarsson og Co sérhæfir sig í sölu á vörum og búnaði fyrir íþróttahús, sundlaugar, skóla og leikskóla.

Í ákvörðuninni segir að körfuboltaspjald og vöruflokkurinn jógadýnur hafi verið auglýst á lægra verði en neytendum hafi staðið til boða. Þá hafi vöruflokkarnir fótboltar, körfuboltar, frisbígolf og padel verið auglýstir með þeim hætti að birt hafi verið mynd af vöru innan auglýsts vöruflokks og fyrir neðan hana hafi komið fram heiti vöruflokksins og lægsta verð vöruflokksins sem birt hafi verið sem „verð frá“.

Við nánari skoðun Neytendastofu kom í ljós að þær vörur sem myndbirtar voru í auglýsingunum voru umtalsvert dýrari en auglýst lægsta verð vöruflokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×