Skoðun

Á­minntur um sann­sögli

Jón Ármann Steinsson skrifar

Í dag eru liðin 51 ár frá því Geirfinnur Einarsson var veginn á heimili sínu í Keflavík, og eitt ár frá því bókin Leitin að Geirfinni kom út. Í bókinni kemur fram að Valtýr Sigurðsson, fyrrum fógetafulltrúi í Keflavík hafi stýrt rannsókninni á hvarfi Geirfinns fyrir 50 árum og að hann hafi fylgt málinu eftir æ síðan. Valtýr hefur síðan haldið nokkra fræðslufundi um Geirfinnsmálið og skrifaði líka grein á visir.is til að kveða niður orðróm um rannsóknina.

Í bókinni kemur við sögu kona nokkur sem Valtýr segist aldrei hafa heyrt um fyrr né síðar en konan tengist Geirfinnsmálinu náið. Í greininni á visir.is mótmælir Valtýr að kunningsskapur við þessa konu hafi afvegaleitt hann sem rannsakanda á hvarfi Geirfinns, og að þau eigi saman rangfeðrað barn. Í greininni lýsir Valtýr hvernig hann fann konuna, fyrst í bókinni og svo á ja.is. Valtýr hringdi í hana, kynnti sig og sagði frá orðróminum um barnið. Staðfesti konan við Valtý að þau tvö hefðu aldrei hist, hvað þá svo úr hafi orðið barn.

Fröken „S” og Geirfinnsmálið

Hver er þessi dularfulla kona? Við skulum kalla hana fröken „S” þó hún komi fram undir fullu nafni í skýrslum málsins. Þrátt fyrir að Valtýr segist ekki vita hver hún sé þá er fröken „S” nefnd í skýrslum Valtýs fyrstu dagana eftir hvarf Geirfinns. Næst poppar hún upp þegar Reykjavíkurlögreglan tekur við rannsókn málsins rúmu ári síðar. Tvær skýrslur voru þá teknar af fröken „S” svo vitað sé en minnst níu aðilar nefna fröken „S” í alls 11 skýrslum, þar af Valtýr sjálfur í þremur þeirra.

Já, þetta er konan sem Valtýr hafði ekki hugmynd um hver væri fyrr en hann blaðaði í bókinni Leitin að Geirfinni í októbermánuði 2025. Þar hefur hann lesið að fröken „S” var besta vinkona Guðnýjar eiginkonu Geirfinns og heimilisvinur þeirra á Brekkubrautinni til margra ára. Fröken „S” kom þar við tvisvar daginn sem Geirfinnur hvarf og hún flutti svo inn til Guðnýjar morguninn eftir hvarfið. Fröken „S” var líka stödd þar á heimilinu þegar Valtýr kom í heimsókn föstudaginn eftir hvarfið.

Fröken „S” var rúmlega tvítug, bráðhugguleg einstæð móðir með kornunga dóttur. Þær mæðgur bjuggu í rúmgóðri leiguíbúð við Vesturgötu í Keflavík sem var á vegum Keflavíkurbæjar og um tíma leigð til Viðlagasjóðs eftir gos. Fyrir hvarf Geirfinns leyfði „S” Guðnýju og ástmanni hennar, Svanbergi, að nota þessa íbúð til ástarfunda. Einnig sama dag og Geirfinnur hvarf, en um kvöldið átti „S” von á næturgesti. Því þurftu turtildúfurnar að finna sér annað athvarf sem þau gerðu heima hjá Guðnýju á Brekkubrautinni.

Kvöldið, 19. nóvember…

Klukkan 22 þetta kvöld var ögurstund fyrir alla sem tengdust Geirfinnsmálinu. Valtýr var við dómarastörf í Keflavík fram til klukkan 22 að dæma í máli tveggja landhelgisbrjóta. Samstarfsmenn hans, sem yfirleitt deildu bílfari til Reykjavíkur, voru löngu farnir heim. Um ferðir Valtýs þetta kvöld fara því engar sögur en allar líkur eru á að hann hafi gist í Keflavík.

Klukkan 22 höfðu Guðný og Svanberg yfirgefið íbúð „S” og farið heim á Brekkubraut þar sem Guðný og Geirfinnur bjuggu. Guðný taldi að Geirfinnur væri í bíó með Þórði vini sínum, en Geirfinnur var þá á leið heim úr Hafnarbúðinni.

Geirfinnur fór aldrei „aftur út” úr húsi og í Hafnarbúðina til að „hitta mann”. Það var enginn „leynifundur útaf spíra" í dráttarbrautinni þetta kvöld. Þetta er bara hentikenning Valtýs sem þannig flutti gjörningsstaðinn út fyrir heimilið. En nóg um það, - aftur til „S”:

Var „S” kannski „fixer“ Valtýs?

Eins og fyrr segir kemur nafn „S” fyrir í skýrslum sem Valtýr samdi sjálfur. Kannski hann vilji útskýra í annarri Vísisgrein hvernig það gerðist? Valtýr gæti þá útskýrt hvernig stóð á því að „S”. sótti fólk í yfirheyrslur fyrir Valtý? Kvöldið 25. nóvember sótti „S” Svanberg elskhuga Guðnýjar og keyrði hann til skýrslutöku á lögreglustöðina í Keflavík þar sem Valtýr beið við ritvélina.

Þetta fjölþætta hlutverk „S” var hvorki skráð né formlegt. Fröken „S” virðist hafa verið alhliða fixer og boðberi Valtýs án formlegs umboðs, einhverskonar boðunardeild?

Tíu daga rannsókn

Rannsókn Valtýs lauk 10 dögum eftir hvarfið og eftir það voru engar nýjar upplýsingar færðar til bókar. Síðasta verk Valtýs var að tengja hvarf Geirfinns við gersamlega ótengt „lögreglumál” sem hann gaf fagheitið „Spíraþáttur Geirfinnsmálsins“. Hvað lá að baki getur Valtýr einn útskýrt en tengingin við spírasmygl var vægast sagt veikburða enda engin fyrirliggjandi gögn sem studdu hana.

Þessi spíratenging varð svo hryggstykkið í rannsókn Sakadóms Reykjavíkur sem tæpum tveimur árum síðar bjó til réttarglæp aldarinnar úr efninu, svokallað Guðmundar og Geirfinnsmál.

Þegar rannsókn Sakadóms og Reykjavíkurlögreglunnar á spíratengdu mannshvarfi Geirfinns var komin í strand var kallaður til erlendur bjargvættur, reynslubolti að nafni Karl Schütz. Og þá, enn og aftur, kemur fröken „S” við sögu þó Valtýr virðist ekki hafa tekið eftir því.

Kommissar Kugelblitz ræskir sig

Þegar Karl Schütz, fenginn að láni frá þýsku alríkislögreglunni, rýndi í gögn málsins sá hann strax það sem Valtýr hafði skautað framhjá: Uppákomu sem nágrannar Geirfinns kölluðu sín í milli „drápsökrin” á Brekkubrautinni og áttu sér stað kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Þá kom upp nafn „S” og hlutverk hennar sem spannaði marga mánuði fyrir og eftir hvarf Geirfinns. Schütz er sagður hafa spurt yfir hópinn í vinnusal rannsóknarinnar: „Hver er þessi „S” og hvers vegna hef ég aldrei heyrt um hana fyrr en nú?“

Schütz fór alls þrjár ferðir til Keflavíkur, m.a. til að ræða við Guðnýju og Valtý og leita uppi fröken „S”. Í sinni fyrstu ferð spurði hann Guðnýju um drápsökrin. Hún vildi ekki kannast við neitt slíkt en fölnaði og skalf. Schütz spurði um fleiri atriði en fékk engin svör frá Guðnýju sem var í taugaáfalli. Þá kom líka í ljós að fröken „S” var flutt frá Keflavík.

Schütz komst því ekki lengra með þennan anga málsins og gloppóttir framburðir í frumskýrslunum voru látnir standa. Þar með var vettvangur hvarfs Geirfinns fluttur út fyrir heimilið og Guðný sögð síðust til að sjá mann sinn á lífi á leið í Hafnarbúðina í annað sinn þetta kvöld.

Geirfinnsmálið er þegar leyst

Undanfarnin misseri hafa komið í leitirnar fjölmörg gögn Geirfinnsmálsins, talin týnd í áratugi. Þá hefur fólk utan úr bæ og innan réttarkerfisins stigið fram og gert okkur kleift að raða saman enn ítarlegri mynd af hvarfi Geirfinns en þeirri sem birtist í bókinni.

Lausnin er fundin, nafn morðingjans er vitað, og allir sem komu að málinu eru ennþá á lífi. Maður veltir því fyrir sér af hverju lögreglan í dag hefur engan áhuga á að leysa þetta 50 ára gamla morðmál. Það ætti að reynast þeim auðvelt verk eftir lestur bókarinnar Leitin að Geirfinni - enda fann Valtýr nafn fröken „S” þar á met tíma og leitaði svo uppi á ja.is. Ég legg til að lögreglan fylgi fordæmi Valtýs; heimsæki bókasafnið, fletti bókinni, finni nafn fröken „S”, opni ja.is, og slái svo á þráðinn. Það kemur bara gott eitt út úr því.

Höfundur er útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni eftir Sigurð Björgvin




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ytra mat á ís

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jenný Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×