Enski boltinn

Úr enska boltanum í eitur­lyfja­smygl og sjö ára fangelsi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ronnie Stam (til vinstri) leiddist út heim glæpa eftir að leikmannaferlinum lauk.
Ronnie Stam (til vinstri) leiddist út heim glæpa eftir að leikmannaferlinum lauk. EPA/LINDSEY

Ronnie Stam, fyrrum fótboltamaður sem varð hollenskur meistari með Twente og spilaði með Wigan í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl. Hann er sagður hafa verið mjög umsvifamikill í hollensku undirheimunum eftir að fótboltaferlinum lauk.

Hollenski saksóknarinn lýsti honum sem stórfelldum glæpamanni og fór fram á þrettán ára fangelsi, en hann var sýknaður af tveimur ákærum og dæmdur í sjö ára fangelsi.

Stam var sakfelldur fyrir að smygla rúmlega sjö hundruð kílóum af kókaíni, MDMA og hláturgasi til Hollands frá Suður-Ameríku, auk þess að hafa tekið þátt í peningaþvætti.

Hann viðurkenndi sjálfur fyrir dómara að hann hefði tekið þátt í að smygla um tuttugu kílóum af kókaíni, og fengið greitt fyrir það andvirði eins kílós, en bar af sér aðrar sakir og sagðist sjá eftir því að hafa tekið þátt í smyglinu.

Stam var hluti af liði Twente sem varð hollenskur meistari undir stjórn Steve McLaren árið 2010. Þaðan lá leiðin til Wigan, sem átti bestu ár í sögu félagsins á þeim tíma.

Wigan varð enskur bikarmeistari árið 2013 eftir sigur í úrslitaleik gegn Manchester City, sem Stam missti af eftir að hafa fótbrotnað í undanúrslitunum.

Síðan fór Stam til Standard Liege í Belgíu áður en hann endaði ferilinn með uppeldisfélaginu NAC Breda í Hollandi. Eftir að ferlinum lauk leiddist hann út í heim glæpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×