Enski boltinn

Grealish lánaður burt en City vill ekki selja Savinho

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jack Grealish er á förum en City vill ekki selja Savinho.
Jack Grealish er á förum en City vill ekki selja Savinho.

Dýrasti leikmaður í sögu Manchester City, Jack Grealish, er við það að ganga til liðs við Everton að láni. City vill hins vegar ekki selja Savinho, sem er eftirsóttur af Tottenham.

Þjálfarinn Pep Guardiola hefur talað um það í sumar að skera þurfi niður í leikmannahópnum en hann vill ekki missa tvo vængmenn í sömu vikunni.

Grealish er að ganga frá lánssamningi við Everton og er væntanlegur í læknisskoðun hjá félaginu í dag. 

Hann er dýrasti leikmaður í sögu City en hefur verið orðaður við brottför frá félaginu eftir að hafa aðeins tekið þátt í sextán leikjum á síðasta tímabili og verið skilinn eftir heima meðan City fór á HM félagsliða.

Grealish verður fimmti leikmaðurinn sem Everton fær til félagsins í sumar, á eftir Thierno Barry, Mark Traves, Adam Aznou og Kiernan Dewsbury-Hall, sem kom á dögunum frá Chelsea.

Á sama tíma hefur Tottenham sett sig í samband við City um kaup á Brasilíumanninum Savinho, sem kom til City í fyrra.

Félögin hafa átt í viðræðum og Tottenham lagði fram óformlegt tilboð upp á rúmar 43 milljónir punda. City hefur sagt að félagið vilji ekki selja Savinho og ef til þess kæmi þyrfti að leggja fram að minnsta kosti 50 milljónir punda.

Að svo stöddu er talið að City muni ekki selja Savinho en hlustað verður á tilboð ef Tottenham heldur áfram að eltast við hann og leikmanninum verður líklega leyft að fara ef hann vill fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×