Enski boltinn

Crystal Palace tapaði á­frýjun og þarf að spila í Sambandsdeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marc Guehi, fyrirliði Crystal Palace. 
Marc Guehi, fyrirliði Crystal Palace.  Vísir/Getty/Julian Finney

Crystal Palace tapaði áfrýjun hjá alþjóðaíþróttadómstólnum vegna máls þeirra gegn evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA. Crystal Palace mun því spila í Sambandsdeildinni á næsta tímabili.

Þrír dómarar á vegum alþjóðaíþróttadómstólsins heyrðu málið síðastliðinn föstudag og felldu úrskurð áðan. Þeir vörðu ákvörðun UEFA og sögðu John Textor hafa átt hlut í og verið stjórnarmaður hjá bæði Crystal Palace og Lyon á þeim tíma sem UEFA tók til greina.

Fresturinn til að skila skjölum fyrir næsta tímabil rann út þann 1. mars síðastliðinn. Síðan þá hefur John Textor selt hlut sinn í Crystal Palace en sú ákvörðun skiptir UEFA engu.

Stuðningsmenn Crystal Palace mótmæltu ákvörðun UEFA á Wembley um helgina þegar liðið spilaði á móti Liverpool. EPA/TOLGA AKME

Málið hefur hangið yfir Crystal Palace í allt sumar, síðan félagið fagnaði sínum fyrsta titili, FA bikarnum, á Wembley í vor og vann sér inn sæti í Evrópudeildinni.

Crystal Palace hefur mótmælt ákvörðuninni harðlega og reynt að sannfæra UEFA með ýmsum aðferðum en aldrei tekist.

Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að Crystal Palace fær ekki sæti í Evrópudeildinni og þarf að spila í Sambandsdeildinni. 

Lyon fær að spila í Evrópudeildinni og Nottingham Forest tekur enska Evrópudeildarsætið sem Crystal Palace gefur eftir.


Tengdar fréttir

Palace áfrýjar og vill spila í Evrópu­deildinni

Enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace hefur ákveðið að áfrýja ákvörðun þess efnis að liðið megi ekki spila í Evrópudeildinni þar sem Lyon er nú þegar þar. Félögin eru að hluta til undir sama eignarhaldi.

Textor á ekkert í Crystal Palace lengur

Woody Johnson hefur formlega gengið frá kaupum á hlut Johns Textor í enska úrvalsdeildarfélaginu Crystal Palace, sem má samt ekki taka þátt í Evrópudeildinni.

Stuðnings­menn Palace mót­mæla ákvörðun UEFA

Mikill fjöldi safnaðist saman fyrir framan Selhurst Park, heimavöll Crystal Palace, í dag til að mótmæla ákvörðun UEFA um að færa Palace niður úr Evrópudeildinni niður í Sambandsdeildina.

„Þetta var bara byrjunin“

Mörg hundruð Crystal Palace stuðningsmenn efndu til kröfugöngu og mótmæltu ákvörðun UEFA um að banna félaginu að taka þátt í Evrópudeildinni í vetur. Forsvarsmaður mótmælanna segir þau bara rétt að byrja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×