Enski boltinn

Isak ætlar aldrei að spila fyrir New­cast­le aftur

Aron Guðmundsson skrifar
Alexander Isak ætlar sér ekki að spila aftur fyrir Newcastle United
Alexander Isak ætlar sér ekki að spila aftur fyrir Newcastle United Vísir/Getty

David Orn­stein, blaðamaður The At­hletic segir það staðfasta skoðun sænska fram­herjans Alexander Isak að hann muni aldrei aftur spila fyrir enska úr­vals­deildar­félagið New­cast­le United jafn­vel þó að hann verði ekki seldur í yfir­standandi félags­skipta­glugga.

Isak hefur ekkert ekkert komið við sögu á undir­búningstíma­bili New­cast­le United fyrir komandi tíma­bil í ensku úr­vals­deildinni sem hefst á föstu­daginn kemur með leik Liver­pool og Bour­nemouth. New­cast­le United á leik gegn Aston Villa á laugar­daginn kemur en þar mun Alexander Isak ekki spila. Leik­maðurinn vill yfir­gefa félagið og ganga í raðir Eng­lands­meistara Liver­pool.

David Orn­stein segir í grein sem birtist á vef The At­hletic í morgun að það sé skilningur miðilsins að Isak ætli sér aldrei aftur að spila fyrir New­cast­le United, það verði raunin þó svo að ef kæmi til þess að hann yrði ekki seldur frá félaginu í yfir­standandi félags­skipta­glugga.

Þessi 25 ára gamli Svíi lék lykil­hlut­verk í liði New­cast­le United á síðasta tíma­bili þar sem að liðið bar sigur úr býtum í enska deildar­bikarnum og tryggði sér sæti í Meistara­deild Evrópu á komandi tíma­bili. Hann skoraði 27 mörk í 42 leikjum og gaf sex stoð­sendingar.

Samningur Isak við New­cast­le United gildir fram á mitt ár 2028, Liver­pool hafði lagt fram kaup­til­boð í hann sem hljóðaði upp á 110 milljónir punda en því var hafnað. Það er skilningur Orn­stein að forráða­menn New­cast­le United gætu hallast að því að selja Svíann leggi Liver­pool fram hærra til­boð í hann en að þeir þurfi á sama tíma að finna arf­taka hans.

Sam­kvæmt heimildum Orn­stein á Isak að hafa tjáð forráðamönnum New­cast­le United það á síðasta tíma­bili að það yrði hans síðasta hjá félaginu eftir að ljóst var að honum yrði ekki boðinn nýr samningur á þeim tíma­punkti þar sem að New­cast­le þyrfti að halda sig innan skil­yrða fjár­mála­reglna fót­boltafélaga.

Ein­hverjir hjá New­cast­le taka fyrir það að þetta hafi verið staðan og að Svíinn hafi ætlað að taka upp þráðinn í viðræðum við félagið eftir síðasta tíma­bil. Orn­stein segir hins vegar að Isak hafi tjáð Eddi­e Howe, knatt­spyrnu­stjóra New­cast­le, það tveimur vikum fyrir lok síðasta tíma­bils að hann vildi fara frá félaginu og aftur eftir loka­leikinn gegn Ever­ton í ensku úr­vals­deildinni.

Liver­pool hefur enn áhuga á leik­manninum, Isak vill fara til Liver­pool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×