Innlent

Dæmdur fyrir brot gegn fimm­tán börnum í við­bót

Árni Sæberg og Jón Þór Stefánsson skrifa
Brynjar Joensen Creed hlaut þriggja ára dóm  í Héraðsdómi Reykjaness, en í fyrra hlaut hann sjö ára dóm í Hæstarétti.
Brynjar Joensen Creed hlaut þriggja ára dóm í Héraðsdómi Reykjaness, en í fyrra hlaut hann sjö ára dóm í Hæstarétti.

Brynjar Joensen Creed hefur verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gegn fimmtán stúlkum. Dómurinn er til viðbótar við sjö ára dóm sem hann hlaut í Hæstarétti í fyrra fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn ungum stúlkum.

Þetta segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp þann 12. maí en birtur í dag. 

Flestir ákæruliðirnir á hendur Brynjari vörðuðu kynferðislegt tal og sendingar á kynferðislegum myndum til stúlkna í gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat. Myndefni þetta sýndi, samkvæmt ákæru, ber kynfæri karlmanns og karlmann fróa sér og annað af kynferðislegum toga. 

Jafnframt bað hann stúlkurnar oft um að senda sér kynferðislegar myndir á móti. Í einum ákæruliðnum var honum gefið að sök að hitta stúlku tvívegis og afhenda henni rafrettu og kynlífshjálpartæki sem hann mun hafa hvatt hana til að nota og senda sér myndefni af því. Jafnframt var hann ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum, í síma sínum, samtals 24 ljósmyndir sem sýndu stúlku á kynferðislegan hátt.

Rannsókn lögreglu sýni aðeins brot samskiptanna

Í niðurstöðukafla dómsins segir að hvað fyrri ákærulið varðar hafi Brynjari verið gefið að sök að hafa staðið í kynferðislegum samskiptum við fimmtán brotaþola. Samskiptin hafi verið allt frá því að viðhafa kynferðislegt tal upp í sendingar á afar grófum kynferðislegum myndum og myndskeiðum sem hann sendi brotaþolum sem voru þá börn að aldri. Þá hafi honum jafnframt verið gefið að sök að hafa hvatt sumar stúlknanna til að senda honum myndir og myndskeið þar sem þeim var gert að framkvæma ýmsar kynferðislegar athafnir.

Sýnt þyki að fyrirliggjandi samskipti sem lögregla náði að afrita við rannsókn málsins sýni ekki nema brot af þeim samskiptum og sendingum sem áttu sér stað á milli Brynjars og stúlknanna. Af samhengi samskiptanna megi vel ráða að Brynkar hafi sent stúlkunum fjölmörg önnur skilaboð af kynferðislegum toga og að sumar stúlknanna hafi sent honum annað efni að hans undirlagi, sem ekki hafi fundist við skoðun.

Stúlkurnar trúverðugar en lítið gefið fyrir skýringar Brynjars

Þá sé það mat dómsins að framburður stúlknanna allra sé mjög trúverðugur og hann fái auk þess stoð í gögnum málsins og hann verði lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Brynjar hafi á hinn bóginn engar skýringar gefið á samskiptunum eða rennt stoðum undir það sjónarmið sitt að hann hafi talið sig hafa verið í samskiptum við fullþroska einstaklinga. 

Þvert á móti þyki sýnt að hann hafi engu skeytt um það, auk þess sem beinlínis verði ráðið að hann hafi beint spjótum sínum að barnungum stúlkum í þeim tilgangi að eiga við þær kynferðisleg samskipti.

Hefði átt að ganga úr skugga um að hann ætti í samskiptum við fullorðna

Brynjari hefði enda borið að ganga sérstaklega úr skugga um að sendingum hans og samskiptum, sem öll hafi verið af kynferðislegum toga, og hafi mörg hver haft að geyma einkar gróf kynferðisleg skilaboð, myndir og myndbönd, væri ekki beint til barna, líkt og raun hafi orðið á.

„Líkt og sjá má í gögnum notast brotaþolar iðulega við styttingar orða í skriflegum samskiptum sínum, líkt og algengt er hjá ungu fólki, svo sem „mdl“ sem stendur fyrir módel eða fæðingarár, „eikhv“ í stað eitthvað, „mrg“ fyrir morgun og „ig“ í stað Instagram, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem orðfæri ritaðra skilaboða ber þess almennt skýr merki að stafa ekki frá fullorðinni manneskju. Þá notaðist ákærði sjálfur við lyndistákn, sem almennt er viðurkennt að hafa sérstaka merkingu meðal ungs fólks og ákærði virðist hafa tileinkað sér í þeim tilgangi að eiga við stúlkurnar kynferðisleg samskipti,“ segir í dóminum.

Með þessu og öllu öðru hafi Brynjar villt á sér heimildir og þóst vera á táningsaldri, en ætla megi að það hafi verið í þeim tilgangi einum að ná sambandi við stúlkur sem hann vissi að væru börn að aldri. Enn fremur beri myndir og myndskeið sem sumar stúlknanna sendu Brynjari berlega með sér að um sé að ræða mjög unga einstaklinga.

Með 24 myndir í símanum

Hvað varðar annan ákærukafla segir að Brynjari hafi einnig verið gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum á farsíma alls 18 ljósmyndir sem sýni hluta brotaþolanna á kynferðislegan hátt. Í fyrri ákæruliðnum var hann ákærður fyrir sex ljósmyndir, og þær því samtals 24 talsins.

Brynjar hafi í skýrslutöku hjá lögreglu sagst ekki muna eftir þessu og ekki kannast við myndirnar, en hann hafi ekki tjáð sig sérstaklega um þær fyrir dómi.

Í greinargerð Brynjar sé hvað þennan ákærulið varðar vísað til þess að ekki liggi fyrir að myndirnar hafi borist honum, auk þess sem ósannað sé að þær séu af brotaþolum eða öðrum. 

Í niðurstöðunni segir að óumdeilt sé að umræddar ljósmyndir hafi verið vistaðar á símtæki Brynjars. Myndirnar hafi verið bornar undir brotaþola við skýrslutöku fyrir dómi, sem hafi sagst þekkja sig á myndunum. 

Framburðir brotaþola hefðu áður verið metnir trúverðugir gagnstætt framangreindum sjónarmiðum sem teflt hafiverið fram af hálfu Brynjars. Verði því talið hafið yfir skynsamlegan vafa að Brynjar hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og hún réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Tíu ár í heildina

Í kafla dómsins um ákvörðun refsingar segir að Brynjar hafi með dómi Hæstaréttar frá janúar 2024 verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn ungum stúlkum, þar á meðal hafi hann þar verið fundinn sekur um að hafa í þrígang gerst brotlegur við nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga, en refsirammi þess ákvæðis sé sextán ára fangelsi. Í málinu hafi Brynjar jafnframt verið sakfelldur fyrir brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem hann er sakfelldur í þessu máli.

„Líkt og greinir í nefndum dómi Hæstaréttar hefur netnotkun barna og ungmenna aukist til muna á undanförnum árum og nýta þau sér samfélagsmiðla í miklum mæli til samskipta. Auðvelt er að nálgast þá sem nýta sér þá miðla og samskiptaforrit, villa þar á sér heimildir, misnota traust sem verður til í slíkum samskiptum og beita blekkingum til þess að viðhafa refsiverða kynferðislega háttsemi. Þá hefur sú þróun sem orðið hefur með aukinni netnotkun barna og breyttu samskiptamynstri þeirra í milli og við aðra með notkun samskiptaforrita og samfélagsmiðla gert þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi sem unnt er að drýgja á þessum vettvangi,“ segir í dóminum.

Refsing nú verði ákveðin samkvæmt framangreindu og einnig ítrekunarákvæðum almennra hegningarlaga og verði Brynjar því dæmdur til refsingar sem samsvarar þeirri þyngingu hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu.

„Samkvæmt öllu þessu verður viðbótarrefsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Er þá ekki síst litið til þess að brot þau sem nú eru til meðferðar eru fjölmörg og svívirðileg, eins og rækilega hefur þurft að rekja í dómi þessum. Brot ákærða beindust þannig gegn mjög ungum stúlkum sem voru á afar viðkvæmum aldri, en sumar þeirra voru einungis 11 ára þegar brotin voru framin. Voru brot ákærða ófyrirleitin og beinlínis til þess fallin að hafa afar neikvæð áhrif á sálarlíf stúlknanna. Eru brot ákærða til þess fallin að marka þolendur þeirra til lífstíðar.“

Bætur vel á annan tug milljóna

Samkvæmt dóminum var Brynjari gert að greiða samtals 17,6 milljónir samtals í miskabætur til stúlknanna. Hæstu stöku bæturnar hljóða upp á 1,5 milljónir, en þær lægstu upp á 750 þúsund. Honum er einnig gert að greiða sakarkostnað málsins, sem er samtals 14,8 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×