Erlent

Aflýstu blaða­manna­fundi skyndi­lega

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók á móti Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrir utan Hvíta húsið.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók á móti Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrir utan Hvíta húsið. EPA

Blaðamannafundi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og Benjamins Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem halda átti í kvöld hefur verið aflýst. Þeir munu svara spurningum útvaldra blaða- og fréttamanna.

Trump tók á móti Netanjahú fyrir utan Hvíta húsið á sjötta tímanum að íslenskum tíma. Fyrir fundinum lá að ræða um stríðið á Gasa, gísla sem enn eru í haldi og tollamál samkvæmt umfjöllun BBC.

Til stóð að halda blaðamannafund að fundi þeirra loknum en honum var aflýst. Talsmenn Hvíta hússins sögðu að ekki væri verið að aflýsa blaðamannafundinum heldur einungis færa hann.

Samkvæmt umfjöllun New York Times var í staðinn fyrir blaðamannafundinn ákveðið að Netanjahú og Trump myndu svara nokkrum spurningum á skrifstofu forsetans. Skrifstofan sé mun minni heldur en fjölmiðlaherbergið þar sem blaðamannafundurinn átti að vera og því komast mun færri blaðamenn að. Þá velja forsvarsmenn Hvíta hússins sérstaklega hvaða blaðamenn fá að vera viðstaddir og spyrja spurninga. 

Talið er að álag á forseta Bandaríkjanna vegna tollamálanna og aðkallandi spurninga sem Netanjahú þarf að svara, eftir blóðuga árás ísraelskra hermanna á fimmtán hjálparstarfsmenn á Gasa, valdi því að hætt hafi verið við blaðamannafundinn.

Einungis fjórir dagar eru síðan Trump lagði á tollgjöld á öll ríki heimsins, til að mynda tíu prósenta tollgjöld á íslenskar vörur og tuttugu prósent á Evrópusambandið. Mikið verðfall hefur verið á mörkuðum heimsins.

Þá myrti ísraelski herinn fimmtán hjálparstarfsmenn, grófu þá í fjöldagröfum og lugu svo til um aðdraganda árásarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×