Erlent

Loka síðasta kola­orku­veri Finn­lands

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuverið í Salmisaari í suðvestanverðri Helsinki. Starfsemi þess var hætt í gær.
Kolaorkuverið í Salmisaari í suðvestanverðri Helsinki. Starfsemi þess var hætt í gær. Vísir/EPA

Síðasta kolaorkuveri Finnlands sem enn var í daglegri notkun var lokað í gær. Eftirspurn eftir kolum hefur hrunið vegna aukins framboðs á endurnýjanlegri orku og yfirvofandi banns við kolabruna.

Orkufyrirtækið Helen segir að kolaknúna raf- og varmaorkuverinu í Salmisaari hafi verið lokað til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stemma stigu við hækkandi raforkuverði til neytenda. Þar með er ekkert kolaorkuver eftir í daglegum rekstri í Helsinki þótt þrjú smærri orkuver séu eftir í landinu sem brenna kol að hluta eða sem varaafl.

Lokun Salmisaari-versins þýðir að losun Helen, sem er í eigu höfuðborgarinnar Helsinki, dregst saman um fimmtíu prósent frá síðasta ári og landslosun Finnlands um tvö prósent.

Í staðinn fyrir þau 175 megavött raforku og 300 megavött varmaorku sem kolaverið framleiddi mun Helen nota raforku, afgangsvarma, hitadælur og brennslu á viðarpillum og trjákurli. Olli Sirkka, forstjóri Helen, segir að til lengri tíma litið sé ætlunina að útrýma öllum bruna jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.

„Það er kannski nauðsynlegt að viðurkenna að hrein orkuskipti eru ekki ódýr. Þetta er sannarlega val sem byggist á gildismati sem við höfum tekið sem samfélag og sem [fyrirtæki],“ segir Sirkka.

Þrátt fyrir kostnaðinn býst Sirkka við því að húshitunarkostnaður viðskiptavina fyrirtækisins lækki um 5,8 prósent að meðaltali á þessu ári.

Raforkuverð í Finnlandi er það þriðja lægsta í Evrópu og er aðeins á eftir Svíþjóð og Noregi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Skammt er liðið frá því að Bretar lokuðu síðasta kolaorkuverki sínu þegar Ratcliffe-on-Soar-verið hætti starfsemi í haust. Kolum hafði þá verið brennt til að framleiða rafmagn í Bretlandi í 142 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×