David Raya bjargaði stigi á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
David Raya sýndi snilldartakta.
David Raya sýndi snilldartakta. Michael Regan/Getty Images

Eftir heldur leiðinlegan fyrri hálfleik þá lifnaði heldur betur yfir leik Manchester United og Arsenal í síðari hálfleik. Lokatölur á Old Trafford 1-1 en gestirnir geta þakkað markverði sínum David Raya fyrir stigið.

Það verður ekki sagt að leikur dagsins hafi verið mikil skemmtun framan af. Bæði lið að glíma við meiðsli - mismikil þó - og leikmannahópar þessa liða sem eitt sinn börðust um titilinn einstaklega þunnir í dag.

Manchester United - Arsenal 

  • Altay Bayindir – Gabriel Jesus
  • Tom Heaton – Kai Havertz
  • Amad Diallo – Bukayo Saka
  • Jonny Evans – Takehiro Tomiyasu
  • Harry Maguire
  • Kobbie Mainoo
  • Lisandro Martínez
  • Mason Mount
  • Luke Shaw
  • Manuel Ugarte
  • Patrick Dorgu (Leikbann)

Þrátt fyrir að leikið væri á Old Trafford í Manchester voru það gestirnir frá Lundúnum sem voru skömminni skárri í fyrri hálfleik. Rauðu djöflarnir voru ekki nafn með rentu framan af fyrri hálfleik en í blálok hans steig fyrirliðinn Bruno Fernandes upp í bókstaflegri merkingu.

Heimamenn fengu nefnilega aukaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Bruno gerði sér lítið fyrir og skoraði þetta líka glæsilega mark. Spyrna hans afspyrnu góð, flaug yfir vegginn og söng í netinu. Var þetta önnur aukaspyrnan sem Bruno skorar úr á þessari leiktíð.

Ef til vill má setja spurningamerki við David Raya í marki gestanna en hann sýndi í síðari hálfleik af hverju hann er með betri markvörðum heims í dag.

Það var sem markið hafi gefið heimamönnum byr undir báða vængi en þeir byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti. Noussair Mazraoui átti skot af stuttu færi eftir fyrirgjöf Diogo Dalot frá vinstri en Raya varði meistaralega. 

Það var þó lítið um opin marktækifæri næstu mínútur en Joshua Zirkzee fékk ágætis færi til að tvöfalda forystu heimamanna. Hann reyndi hælspyrnu sem Raya varði nokkuð örugglega.

Það kom svo að því að gestirnir fundu örlítinn takt sóknarlega og gengu á lagið. Það voru 74 mínútur á klukkunni þegar hægri bakvörðurinn Jurriën Timber gerði vel og skar boltann út í teig þar sem Declan Rice kom og smellti boltanum í netið með hnitmiðuðu skoti úr teig heimamanna. 

Rice var óhemju einn á auðum sjó í vítateig Man United en Rauðu djöflarnir hafa gert það að sérgrein sinni að vera með fjölmarga menn í eigin vítateig en engan þó að dekka mótherjann. Eftir markið má segja að leikurinn hafi opnast þar sem bæði lið vildu fara heim með stigin þrjú.

Rice átti eftir að koma aftur við sögu en hann bjargaði þá sínum mönnum með frábærri tæklingu þegar Rasmus Höjlund var gefinn boltinn innan vítateigs Arsenal af leikmanni gestanna. Danski framherjinn hefur hins vegar varla fengið færi á árinu og var alltof lengi að athafna sig. Það nýtti Rice sér og bjargaði því sem bjargað var. 

Tæklingin sem um er ræðir.Michael Regan/Getty Images

Þá geta gestirnir ef til vill kvartað yfir dómgæslu leiksins þar sem hinn 18 ára gamli miðvörður Ayden Heaven skallaði boltann í hendina á sér eftir hornspyrnu gestanna. Heaven skipti Arsenal út fyrir Man Utd í janúar og kom inn af bekknum í hálfleik í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik vegna meiðsla Leny Yoro.

Markvörðurinn Raya reyndist svo hetja gestanna í uppbótartíma þegar hann varði meistaralega frá Bruno Fernandes. Boltinn var þá gefinn út í teig og Fernandes átti skot í fyrsta sem Raya varði en boltinn virtist ætla að skoppa í markið þegar Raya sveif í gegnum loftið og sló knöttinn frá marki. 

Lokatölur því 1-1 jafntefli sem gerir lítið fyrir bæði lið. Arsenal er nú með 55 stig í 2. sæti, fimmtán stigum minna en topplið Liverpool sem á leik til góða. Man United er í 14. sæti með 34 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira