Handbolti

Danski dómarinn aftur á börum af velli

Sindri Sverrisson skrifar
Jesper Madsen fór á börum af velli í leik Veszprém og Sporting í Meistaradeild Evrópu í Ungverjalandi 20. febrúar. Sagan endurtók sig í gær.
Jesper Madsen fór á börum af velli í leik Veszprém og Sporting í Meistaradeild Evrópu í Ungverjalandi 20. febrúar. Sagan endurtók sig í gær. EPA-EFE/Tamas Vasvari

Í annað skiptið á skömmum tíma fékk danski dómarinn Jesper Madsen aðsvif og var fluttur á börum af velli, þegar Álaborg og lærisveinar Arnórs Atlasonar í Team Tvis Holstebro mættust í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær.

Madsen lagðist niður á gólfið þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður og lærisveinar Arnórs nýbúnir að komast í 24-22. Spenna var því í leiknum og fjölmennt í höllinni.

Madsen var með meðvitund allan tímann en hann var fluttur af velli á börum og félagi hans, Mads Hansen, dæmdi einn það sem eftir var af leiknum sem lauk með 30-29 sigri Álaborgar.

Madsen var einnig borinn af velli í leik í Meistaradeild Evrópu 20. febrúar, á milli Íslendingaliðanna Veszprém og Sporting.

„Miðað við það sem gerðist í Veszprém, þegar það leið næstum yfir hann í fyrsta skipti, þá líður honum verr í dag. Hann svimar svolítið meira. Hann situr úti í sjúkrabíl og er búinn að kasta upp. Hann virðist meira dasaður en síðast,“ sagði Mads Hansen í viðtali við TV 2 eftir að leiknum lauk.

Hann sagði að búið væri að athuga hvort að um hjartavandamál væri að ræða en að svo virtist ekki vera. Madsen var svo fluttur á sjúkrahús í Álaborg til frekari rannsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×