Enski boltinn

Man. United má ekki nota unga fram­herjann sinn í Evrópu­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chido Obi-Martin fékk nokkur færi í bikarleik Manchester United á móti Fulham um síðustu helgi.
Chido Obi-Martin fékk nokkur færi í bikarleik Manchester United á móti Fulham um síðustu helgi. Getty/Robbie Jay Barratt

Framherjinn stórefnilegi Chido Obi-Martin verður fjarri góðu gamni á fimmtudagskvöldið þegar Manchester United spilar við Real Sociedad í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Hinn sautján ára gamli Obi-Martin kom inn á sem varamaður í bikartapinu á móti Fulham á sunnudaginn.

Strákurinn var líflegur og kom sér í nokkur góð færi án þess að ná að skora. Þetta var aðeins þriðji leikur hans fyrir aðalliðið eftir að hann kom til United frá Arsenal í október.

Obi-Martin lífgaði upp á daufan sóknarleik United liðsins og það voru einhverjir farnir að kalla eftir því að hann fengi að byrja leik hjá Ruben Amorim.

Danski framherjinn Rasmus Højlund hefur ekki skorað síðan í desember.

Það verður þó enginn Obi-Martin í leiknum á fimmtudagskvöldið þar sem hann er ekki gjaldgengur í Evrópuleikjum. ESPN segir frá.

United bætti Patrick Dorgu og Ayden Heaven á leikmannalistann sinn í janúar fyrir útsláttarkeppnina í Evrópudeildinni en þar var aftur á móti enginn Chido Obi. Hann má hins vegar spila í ensku úrvalsdeildinni og enska bikarnum.

Ungir leikmenn eru á svokölluðum B-lista fyrir Evrópukeppnina en þangað komast þeir þó ekki fyrr en þeir hafa verið í tvö ár hjá félaginu en Obi er nýkominn til United.

Það er hálfgert leikmannahallæri hjá United vegna meiðsla og annars en aðeins sjö varamenn voru á skýrslu í leik helgarinnar. 

Það hefði því verið gott að geta verið með Obi-Martin í hópnum í þessum mikilvæga leik en þetta er eina keppnin sem United á enn möguleika á því að vinna titil á þessu tímabili og um leið eina lið liðsins inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×