Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég stilli oftast klukkuna klukkan korter í sjö á virkum dögum og það borgar sig að drífa sig á fætur áður en stelpurnar vakna svo tímalínan gangi upp á morgnana. Mér finnst best að fara snemma að sofa og ná átta tíma svefni, það eru svo mikil lífsgæði að vera vel útsofinn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég dríf mig í sturtu og reyni að komast sem lengst með að hafa mig til áður en stelpurnar mínar vakna. Morgnarnir hjá okkur hjónunum ganga mikið út á það að koma öllum bara út úr húsi, það er fyrsti sigur dagsins.
Ég get ekki sagt að ég sé með einhverja morgunrútínu sem snýst um sjálfa mig. Ég hef lært af reynslunni að klæða mig ekki skyrtu, blússu eða jakka fyrr en rétt áður en við förum út úr húsi því annars eru góðar líkur á því að ég þurfi að skipta um föt að minnsta kosti. einu sinni á morgnana, enda með eina tíu mánaða gamla stelpu og aðra fjögurra ára. Það er ákveðin rútína!
Ég gríp oftast bara með mér jógúrt og banana eða fæ mér brauðsneið í vinnunni og fyrsta kaffibollann þegar ég er komin út í daginn.“
Á skalanum 1-10, hversu mikið jólabarn ertu?
Ég er að færast upp skalann aftur, segi sex.
Ég týndi svolítið jólabarninu í mér á tímabili, en það kemur aftur þegar maður eignast börn.
Þá er svo gaman að lifa sig inn í þetta í gegnum þau og eldri stelpan mín er núna komin á þann aldur að hún veltir jólunum mikið fyrir sér.
Ég viðurkenni þó alveg að ég vildi að ég gæfi mér meiri tíma í jólastandið – ég er ekki búin að baka neitt. Það er samt komið skraut og svo eru það jólalögin í bílnum. Við erum að fara af stað með nýjar hefðir núna eftir því sem fjölskyldan stækkar, ég trúi því að ég komist lengra upp skalann með hverju árinu sem líður.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnið er stórt enda snýst það um að stilla upp áætlun fyrir stjórn landsins – Samfylkingin stefnir í ríkisstjórn ef almenningur í landinu treystir okkur til verka. Frá því að ég tók við sem formaður flokksinshafa miklar breytingar átt sér stað innan flokks; hvernig við vinnum á Alþingi, hvernig málefnastarfið innan flokks er skipulagt og hvernig áherslur eru mótaðar.
Við höfum nú þegar skilað af okkur áætlun í heilbrigðismálum eftir að hafa fundað með landsmönnum hringinn í kringum landið og sótt okkur innblástur. Og nú er komið að atvinnu- og samgöngumálum sem verða í forgrunni fram á vor. Við ætlum að heimsækja fólk á vinnustöðum landið um kring og stilla upp réttlátu vaxtarplani fyrir Ísland sem við getum byggt á, ekki bara á næsta kjörtímabili heldur næstu 2-3 kjörtímabil. Það eru engar töfralausnir til staðar, en við getum tekið örugg skref í átt að betra stjórnarfari hér.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Það fer allt í dagatalið hjá mér annars gleymist það. Og ég er með ótrúlegan aðstoðarmann sem heldur mér við efnið.
Annars snýst þetta fyrst og fremst um að mikla hlutina ekki of mikið fyrir sér og vinna bara jafnt og þétt.
Eftir að ég fór í þingmannsstarfið og sérstaklega eftir að ég tók við sem formaður hef ég þó vanist ófyrirsjáanleikanum sem fylgir starfinu. Þegar ég var yngri vildi ég helst vita allt fyrir fram og hafa nægan tíma til að undirbúa mig. Ég vil samt segja, að undirbúningur er alltof vanmetinn. Og sumt er ekki hægt að gera með skömmum fyrirvara.
Málefnastarfið sem við erum með í Samfylkingunni til dæmis, og við byggjum áherslur okkar á þessa dagana, krefst þess að maður liggi yfir hlutunum, tali við marga, lesi, taki nótur, íhugi og gefi sér tíma í að móta hugsanir. Síðan byggir maður á slíkri vinnu í öðru þar sem þarf að hlaupa hraðar – maður kemst ekkert áfram ef maður gefur sér aldrei tíma til að móta hugmyndir og hugsanir. Svo ég starfa svolítið á tveimur víddum í þessu starfi, einu hægu og einu hröðu.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er oftast komin upp í rúm fyrir klukkan ellefu, átta tímarnir ef ég næ þeim! Ég forgangsraða eiginlega alltaf svefni. Það er samt freistandi sum kvöld að fá tíma fyrir sjálfan sig eftir að börnin eru komin í rúmið og eyða tíma í allt og ekki neitt og þá fer reglan út um gluggann.“