Viðskipti innlent

Jón nýr prófessor við verk­fræði­deild HR

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Guðnason.
Jón Guðnason. HR

Dr. Jón Guðnason hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík eftir mat alþjóðlegrar hæfisnefndar.

Í tilkynningu frá skólanum segir að Jón hafi starfað við verkfræðideild HR frá árinu 2009. Deildin hafi þá aðeins verið starfandi í fjögur ár og hafi Jón því tekið afar virkan þátt í að byggja deildina upp og stofna og þróa ýmis lykilnámskeið, sérstaklega innan rafmagnsverkfræðinnar.

„Jón hefur unnið að rannsóknum sem beinast að notkun merkjafræði og vélnámi í greiningu tals og þróun talmálstækni. Hann hefur sérhæft sig í að greina raddbandasveiflur til að sía talmerki og vinna úr þeim raddlindarmerki. Með þessari nálgun á greiningu tals er hægt að greina ýmis konar raddgæði og máltengd einkenni, og hefur hún til dæmis nýst í erfðafræðirannsóknum og greiningu á stressi í tali. Þá hefur Jón stýrt rannsóknum og þróunarverkefnum í máltækni fyrir íslenskt talmál. Þetta hefur til að mynda skilað sér í innleiðingu á íslenskri talgreiningu í kerfum frá Google og Microsoft, sem og í sjálfvirkri ræðuritun hjá útgáfusviði Alþingis. Síðustu misseri hefur Jón rannsakað notkun talgreiningar fyrir sjálfvirka framburðarþjálfun fyrir kennslu í íslensku og þróun nýrrar tíma og tíðni framsetningar á talmerkjum.

Jón er afkastamikill vísindamaður og hafa niðurstöður rannsókna hans reglulega birst í fræðitímaritum og verið kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum. Hann lauk doktorsprófi í merkjafræði frá Imperial College London árið 2007, meistaraprófi í merkjafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og B.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá sama skóla árið 1999,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×