Skoðun

Bandarískir ferðamenn slá met

Magnús Sigurbjörnsson skrifar

Icelandair sagði frá því á dögunum að sætanýting í flugi til og frá Norður-Ameríku hafi aldrei verið betri í júní. Það stemmir vel en Bandaríkjamenn eyddu 14,14 milljörðum króna á Íslandi í júní samkvæmt tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV). Bandaríski dollarinn hefur svo sannarlega tekið við sér á síðustu árum og hefur verið hagstætt fyrir Bandaríkjamenn að ferðast til Íslands - og svo er líka stutt flug.

Í heildina eyddu erlendir ferðamenn 36 milljörðum króna á landinu í júní. Það er aukning um 26% á milli ára. Hlutur Bandaríkjamanna er tæplega 40% af eyðslu erlendra ferðamanna. Mestu er varið í gistiþjónustu af ýmsum toga en bílaleigur og veitingaþjónusta eru ekki langt undan. Við Íslendingar eyddum 94,2 milljörðum króna í mánuðinum og þar af 23 milljörðum króna í stórmarkaði og dagvöruverslanir. Til að setja þetta í samhengi, þá eyddu bandarískir ferðamenn á Íslandi í júní 2023:

  • Meira en við Íslendingar eyddum í bensín, viðgerðir og viðhald bíla í mánuðinum (11,1 ma.kr.)
  • Meira en við Íslendingar höfum eytt í lækna- og tannlæknaþjónustu það sem af er árinu (12,1 ma.kr.)
  • Meira en við Íslendingar eyddum í veitingastaði, menningu- og afþreyingu í mánuðinum (11,8 ma.kr.)
  • Meira en knattspyrnuliðið Liverpool borgaði fyrir nýjan miðjumann, Dominik Szoboszlai (10,2 ma.kr.)
  • Um 8% af söluverði Kerecis sem var selt á dögunum til Coloplast í Danmörku (175 ma.kr.)

Það má því segja að erlendir ferðamenn séu mikilvægur þáttur í íslenskri verslun og þjónustu. Í heildarveltu landsins í júni eru þeir 28% af heild. Bandarískir ferðamenn hafa ekki síðan Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) hóf mælingar eytt jafn miklu í einum mánuði svo það er met. Það kæmi ekki á óvart ef metið yrði slegið í júlí og ágúst líka.

Höfundur er forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV). RSV tekur saman upplýsingar um kortaveltu á Íslandi og hægt er að nálgast nánara niðurbrot á www.rsv.is . Allar tölur eru á breytilegu verðlagi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×