Fótbolti

Ólafur Davíð: „Við munum vakna til lífsins, bíðið þið bara“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ólafur Davíð Jóhannesson var að vanda líflegur á hliðarlínuni í kvöld. 
Ólafur Davíð Jóhannesson var að vanda líflegur á hliðarlínuni í kvöld.  Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Davíð Jóhannesson er enn taplaus eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá Val á nýjan leik fyrr í sumar en liðið gerði jafntefli við Víking í Fossvoginum í Bestu deild karla í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld.

„Þetta var skemmtilegur leikur þar sem það voru fullt af færum á báða bóga. Ég er bara heilt yfir sáttur við frammistöðu minna manna. 

Það var mjög sterkt að ná að koma til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Við komum okkur inn í leikinn með marki skömmu fyrir lok fyrri háflleiks og mér fannst við líklegir til þess að skora allan seinni hálfleikinn," sagði Ólafur að leik loknum.  

„Við fengum bara einu stigi meira en við vorum með fyrir leikinn. Eins og staðan er núna getum við ekkert verið að velta toppbaráttunni fyrir okkur. Það er hins vegar ljóst í mínum huga að við munum vakna til lífsins aftur, bíðið þið bara," sagði þjálfarinn margreyndi. 

„Það er nóg eftir af þessu móti og við fáum fimm hörkuleiki þegar umferðunum tveimur lýkur. Ég er í grunninn ósammála þessu fyrirkomulagi en ég hef ekki tíma til þess að fara yfir það núna hvaða galla ég sé á því að tvískipta deildinni og efstu og neðstu liðin spili við hvort annað," sagði hann um framhaldið. 

Eftir að Ólafur Davíð kom í brúnna hjá Valsliðinu hefur liðið haft betur í þremur leikjum og gert tvö jafntefli. Valur er í fjórða sæti deildarinnar með 31 stig en liðið er einu stigi frá Víkingi, fimm stigum á eftir KA. Valur er svo 11 stigum fyrir neðan Breiðablik sem er á toppnum.        




Fleiri fréttir

Sjá meira


×