Fótbolti

Milan mis­steig eftir sigurinn frækna á Real

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. EPA-EFE/FABIO MURRU

AC Milan missteig sig harkalega gegn Cagliari í Serie A, efstu deildar ítalska fótboltans. Eftir að vinna frækinn útisigur á Real Madríd í liðinni viku tókst liðinu aðeins að ná í stig á útivelli í dag, lokatölur 3-3.

Heimamenn komust yfir strax á 2. mínútu leiksins en Rafael Leão svaraði fyrir gestina frá Mílanó. Hann jafnaði metin á 15. mínútu og kom Mílanó-liðinu yfir þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks.

Heimamenn héldu að þeir hefðu jafnað metin en myndbandsdómari leiksins dæmdi mark liðsins í uppbótartíma af vegna rangstöðu, staðan 1-2 í hálfleik.

Aftur voru það heimamenn sem byrjuðu betur í síðari hálfleik og jöfnuðu þeir metin á 53. mínútu. Gestirnir brugðust við því með að setja Ruben Loftus-Cheek og Tammy Abraham inn af bekknum. Örfáum mínútum síðar var staðan orðin 2-3, Abraham með markið.

Heimamenn létu ekki segjast og jöfnuðu metin þegar ein mínúta var til loka venjulegs leiktíma, reyndist það síðasta mark leiksins og lokatölur 3-3.

AC Milan hefur nú aðeins unnið tvo af síðustu fimm leikjum sínum og situr í 7. sæti með 18 stig, sjö stigum minna en topplið Napoli þegar 11 umferðir eru búnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×