Körfubolti

NBA dagsins: Tók nýju verk­efni fagnandi og kældi niður sjóð­heita skyttu Port­land

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var ekki auðvelt fyrir Damian Lillard að ná góðu skoti á körfuna þegar Aaron Gordon var að dekka hann í nótt.
Það var ekki auðvelt fyrir Damian Lillard að ná góðu skoti á körfuna þegar Aaron Gordon var að dekka hann í nótt. AP/Joe Mahoney

Ein af stóru sögulínum næturinnar í NBA deildinni í körfubolta var varnarskipting þjálfarateymis Denver Nuggets í hálfleik.

Denver liðið tapaði fyrsta leiknum á heimavelli á móti Portland Trail Blazers í einvígi liðanna í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar en tókst að jafna metin í nótt.

Það var hins vegar að stefna í einhvern ofurleik hjá Damian Lillard, bakverði Portland Trail Blazers, sem var kominn með 32 stig í fyrri hálfleiknum þar sem hann hitti meðal annars úr átta þriggja stiga skotum.

Michael Malone, þjálfari Denver, og aðstoðarfólk hans vissi að þeir þyrftu að breyta einhverju því varnarskipulag fyrri hálfleiksins var ekki alveg að ganga upp.

Aaron Gordon, leikmaður Denver liðsins, var meira en klár í nýtt verkefni. „Ég er með hann,“ sagði Gordon.

Þessi breyting gekk upp því Damian Lillard skoraði aðeins eina þriggja stiga körfu og lét sér nægja tíu stig í seinni hálfleiknum og Denver liðinu tókst að jafna einvígið í 1-1 með 128-109 sigri.

Austin Rivers og Facundo Campazzo voru að reyna að dekka Lillard en Aaron Gordon er mun stærri og gekk betur að loka á þriggja stiga skotin hans.

„Í hálfleik þegar hann hafði skorað 32 stig þá sögðum við: Prófum að láta Aaron Gordon dekka hann. Ein af ástæðunum fyrir því að við fengum hann til okkar var hversu fjölhæfur varnarmaður hann er. Hann vildi líka fá þetta tækifæri og tók því fagnandi. Það var eitt það besta við þetta. Aaron Gordon vildi endilega dekka hann,“ sagði Michael Malone, þjálfari Denver Nuggets.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leikjum næturinnar þar sem Milwaukee Bucks komst í 2-0 á móti Miami Heat.

Klippa: NBA dagsins (frá 24. maí 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×