Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna alltaf klukkan hálf sjö á virkum dögum.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að fara í sturtu og síðan fæ ég mér góðan kaffibolla. Les blöðin og helstu fréttamiðla yfir kaffibolla númer tvö. Hef aldrei verið mikill morgunverðarmaður og borða yfirleitt ekkert fyrr en í hádeginu.“
Hvað er áhugamál númer #1?
„Áhugamálin eru mörg en tengjast flest útiveru og hreyfingu. Er algjör alæta á íþróttir og fylgist með öllum úrslitum í helstu íþróttagreinum.
Börnin eiga það til að gera grín að mér hvað þetta varðar með því að spurja um úrslit úr þriðju deild í knattspyrnu í Belgíu, ég er samt ekki það mikið íþróttanörd að ég fylgist með þeim úrslitum!
Nú í Covid höfum við konan tekið upp á því að ganga mikið, bæði í nær umhverfi okkar og í Heiðmörk. Langir göngutúrar með konunni eru mjög gefandi, bæði fyrir sál og líkama.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er að setja mig inn í nýtt starf sem framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar og þar er í mörg horn að líta.
Félagið rekur slysavarnaskóla sjómanna, björgunarskóla, er öflugt í forvarnastarfi, kemur að almannavörnum landsins eins og sést best á starfi sjálfboðaliða okkar í kringum eldgosið.
Félagið er stórt og öflugt, við erum með um sexþúsund sjálfboðaliða um allt land í fjölmörgum slysavarnadeildum, björgunarsveitum og unglingadeildum.
Verkefni okkar eru um allt land, bæði á láði sem legi.
Skrifstofa félagsins sem ég veiti forstöðu þjónustar einingar félagsins og hinn almenna félagsmann. Einnig starfar skrifstofa félagsins að því að tryggja fjármögnun starfseminnar. Velvilji og stuðningur almennings, fyrirtækja og hins opinbera er ómetanlegur.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Nota yfirleitt seinnipart föstudags til að skipuleggja næstu viku og vinn svo með gróf mánaðarplön sem innihalda þá viðburði eða verkefni sem þarf að inna af hendi innan þess mánaðar.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer yfirleitt að sofa um eða eftir miðnætti. Er blanda af A og B manneskju, er að drolla fram eftir á kvöldin en á mjög auðvelt með að vakna á morgnana. Vakna yfirleitt áður en klukkan hringir. Leyfi mér að sofa aðeins lengur um helgar.“