Þrumu­fleygur Foden skaut Guar­diola loksins í undan­úr­slitin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Phil Foden og Kyle Walker fagna sigurmarkinu á Signal Iduna Park í kvöld.
Phil Foden og Kyle Walker fagna sigurmarkinu á Signal Iduna Park í kvöld. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Manchester City er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti undir stjórn Pep Guardiola eftir annan 2-1 sigur á Borussia Dortmund.

City vann fyrri leikinn á Englandi 2-1 og vann því einvígið samanlagt 4-2. City mætir PSG í undanúrslitunum en fyrri leikurinn fer fram í Frakklandi 27. eða 28. apríl og síðari leikurinn á Englandi viku síðar.

Það voru heimamenn í Dortmund sem komust yfir. Erling Braut Håland kom þá boltanum á hinn unga Englending, Jude Bellingham, sem skoraði með frábæru marki á sextándu mínútu.

Kevin De Bruyne komst næst því að jafna metin í fyrri hálfleik fyrir City er hann skaut boltanum í slá á 27. mínútu en inn vildi boltinn ekki. Dortmund leiddi í hálfleik, 1-0.

City herti pressuna í síðari hálfleik og fékk vítaspyrnu á 52. mínútu er boltinn fór í hönd Emre Can. Á punktinn steig Riyad Mahrez og skoraði. Allt jafnt og City á leiðinni áfram.

Það var svo Phil Foden sem tryggði City sigurinn stundarfjórðungi fyrir leikslok. Eftir stutt horn fékk Foden boltann fyrir við vítateigslínuna og þrumaði boltanum í nærhornið. Lokatölur 2-1.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira