Skoðun

Fyrrum borgar­full­trúi lætur sér detta í hug sam­einingu Sel­tjar­nes­bæjar við skulda­fenið Reykja­vík

Ragnhildur Björg Guðjónsdóttir skrifar

Mér brá heldur betur í brún þegar ég rak augun í Facebook-færslu Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, fyrrum borgarfulltrúa í Reykjavík fyrir Framsókn- og flugvallarvini, á íbúasíðu Seltirninga. Þar kvaðst Guðfinna vera mjög efins um að Seltjararnes ætti að vera sjálfstætt sveitarfélag. Viðhorf þetta þótti mér svo umhugsunarvert að ég gat ekki orða bundist.

Guðfinna skrifaði orðrétt í færslu sinni: „Það er ákveðið sjokk að flytja aftur á Nesið og sjá hvað það er mikið 1970 hvað varðar umhirðu og skipulag meðan nágrannasveitarfélögin blómstra, svo ekki sė talað um menningarstarfsemina og fjármálin. Sömu teppin í Félagsheimilinu og voru þegar Heiðar Ástvalds kenndi okkur að dansa fyrir tæpum 50 árum og sömu brotnu flísarnar á Eiðistorgi síðan èg var flokkstjóri í unglingavinnunni fyrir rúmum 30 árum. Ég er mjög efins um það að Nesið eigi að vera sjálfstætt sveitarfélag miðað við metnaðarleysið a.m.k. er ljóst í mínum huga að Sjàlfstæðisflokkurinn ræður ekki við verkefnið.“

Skýtur skökku við

Ég man ekki betur en að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hafi gagnrýnt meirihlutann í Reykjavík harðlega á síðasta kjörtímabili þegar hún sat þar í borgarstjórn, m.a. vegna skipulagsmála, samgöngumála og óstjórnar í fjármálum Reykjavíkurborgar. Það verður að segjast eins og er að þetta innlegg hennar skýtur svolítið skökku við.

Það er að minsta kosti heldur betur mikill viðsnúningur hjá Guðfinnu Jóhönnu að láta sér detta í hug að það geti verið góður kostur fyrir Seltjarnarnes að sameinast skuldafeni Reykjavíkurborgar.

Stórfurðulegar hugmyndir um sameiningu

Í tengslum við þessar stórfurðulegu vangaveltur Guðfinnu Jóhönnu, bendi ég Seltirningum á að kynna sér ársreikning Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram á blaðsíðu 29 að A og B hluti Reykjavíkurborgar skuldi samtals u.þ.b. 340 milljarða króna.

Þá hefur veltufé frá rekstri, sem Guðfinna ætti nú að þekkja mætavel frá fyrrum störfum sínum sem borgarfulltrúi, ekki nægt fyrir skuldbindingum Reykjavíkurborgar síðastliðin ár. Ennfremur er vert að benda Seltirningum á að útsvarið í Reykjavík er í hæsta lögleyfða hámarki, og ekki nóg með það þá eru fasteignaskattar þar svimandi háir.

Óverjandi samanburður

Þá minni ég Guðfinnu á, þar sem hún lætur að því liggja að allt sé svo glæsilegt og til fyrirmyndar í nágrannasveitarfélögunum - m.a. engin gömul teppi í Félagsheimilum – að í Reykjavík hefur viðhaldi skólabygginga verið verulega ábótavatn. Þar glíma menn við margra ára uppsafnað viðhald á byggingum borgarinnar, þar sem mygla og mölflugur hafa fundist og skólabörnum og starfsfólki boðið að starfa í heilsuspillandi aðstæðum. Ekki viljum við Seltirningar bjóða okkar fólki upp á slíkar aðstæður. Hvað þá að bjóða börnum upp á þær.

Vörumst málflutning þar sem hljóð og mynd fara ekki saman

Þá á Guðfinnu, sem sat í skipulagsráði Reykjavíkurborgar að vera vel kunnugt um umferðarvandann í Reykjavík, sem kemur niður á okkur Seltirningum og lengir ferðatíma okkar til og frá vinnu á hverjum einasta degi.

Orðatiltækið skjótt skipast veður í lofti kemur upp í hugann þegar hugsað er um málflutning Guðfinnu Jóhönnu. Seltirningar verða að varast málflutning þar sem hljóð og mynd fara ekki saman. Ég segi nei við sameiningarhugmyndum Guðfinnu Jóhönnu.

Höfundur er framhaldsskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×