Skoðun

Stolt út um allt!

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar
Við fögnum fjölbreytileikanum á 20 ára afmæli Hinsegin daga um þessar mundir. Hátíðin hefur svo sannarlega vaxið ár frá ári, þroskast og eflst þar sem fjölbreytileikinn birtist okkur í sífellt nýrri mynd. Viðurkenning fjölbreytileikans fangar sífellt fleiri birtingarmyndir þess að vera einstaklingur sem stendur með eigin tilfinningum. Slíkt kallar á stöðugt endurmat á því í hverju viðurkenningin fyrir manneskjunni sjálfri felst. Að hver einasta manneskja hafi frelsi og stuðning til þess að standa með sjálfri sér hver sem hún er á hverjum tíma.

Því skiptir máli að við sem samfélag stöndum þessa gríðarlega mikilvægu vakt sem felur í sér að virða og styðja við velferð allra. Það gerum við með því að viðurkenna fjölbreytileikann í nærsamfélagi okkar.

Við sem vinnum að því að gera samfélagið betra með því að hafa umboð kjósenda, vera kjörnir fulltrúar í okkar nærsamfélagi, berum ábyrgð á þeim stuðningi og viðurkenningu sem fæst á hverjum tíma. Viðurkenningu sem er hinsegin fólki sérstaklega dýrmæt. Öll sveitarfélög ættu að hafa virka stefnu í fræðslu í málefnum hinsegin fólks. Láta verkin tala. Þannig náum við árangri og gerum fleirum kleift að standa með sjálfum sér.

Viðurkenningin fæst nefnilega ekki með orðum og velvilja einum saman heldur með því að halda uppi öflugri fræðslu. Fræðslu um veruleika hinsegin fólks í allri sinni mynd. Fræðslu sem nær til allra þeirra sem starfa með fólki. Skólar eru sérstaklega mikilvægur vettvangur fyrir slíka fræðslu en ekki síður aðrar stofnanir sem fara með málefni fólks. Fræðsla um veruleika hinsegin fólks ætti í raun aldrei að vera val. Hún skiptir máli og hefur með velferð einstaklinga að gera.

Á Hinsegin dögum er fjölbreytt dagskrá þar sem mikilvægi sýnileikans er dreginn fram frá ólíkum hliðum. Þar er ekki síður þátttaka samfélagsins dregin fram þar sem sýnileikinn er ekki einkamál þess sem skilgreinir sig undir regnhlíf hinsegin samfélagsins. Sjálf þakka ég sérstaklega fyrir frelsið sem viðurkenningin hefur gefið mér sem lesbía á þessum tímamótum og vona að enn fleiri geti gert það í dag en í gær.

Við berum einfaldlega öll ábyrgð.

Gleðilega Hinsegin daga!




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×