Körfubolti

Vill þjálfa Houston Rockets í þrjú ár í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike D'Antoni og James Harden eru enn að leita leiða til að komst í gegnum Golden State Warriors í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.
Mike D'Antoni og James Harden eru enn að leita leiða til að komst í gegnum Golden State Warriors í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Getty/Lachlan Cunningham
Mike D'Antoni hélt upp á 68 ára afmælið sitt í byrjun maí en hann fékk ekki sigur á Golden State Warriors í afmælisgjöf.

NBA-tímabil Houston Rockets strandaði enn á ný á Golden State Warriors, nú í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Í fjórða sinn á fimm árum sló Warriors liðið Houston út úr úrslitakeppninni og sendi James Harden og félaga um leið í sumarfrí.

Mike D'Antoni tók við Houston-liðinu sumarið 2016 og var því að klára sitt þriðja tímabil með liðið. Undir hans stjórn hefur Rockets liðið unnið 55, 65 og 53 leiki á þessum þremur tímabilum en það hefur vantað herslumuninn í úrslitakeppninni.

Nú vill D'Antoni fá þrjú ár í viðbót með Houston liðið en hann á eftir eitt ár af núverandi samningi.





Mike D'Antoni þjálfaði fyrst í NBA tímabilið 1998-99 en hann hefur aldrei komist með lið í lokaúrslitin um titilinn. Tímabilið í ár var tímabil númer fimmtán hjá honum og sex þeirra hafa endað í undanúrslitaeinvígi eða úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

D'Antoni sagði eigandanum Tillman Fertitta og framkvæmdastjóranum Daryl Morey að hanni vilji fá þrjú tímabil í viðbót með liðið.

„Ég lét þá vita af því að ég hef orkuna í að halda áfram í þjálfun. Ég vil vera hluti af meistaraliði hér,“ sagði Mike D'Antoni við ESPN.

Þrátt fyrir vonbrigðin í úrslitakeppninni fyrr í þessum mánuði þá vill Tillman Fertitta, eigandi Houston Rockets, halda þjálfaranum.

„Við setjumst niður með honum og förum yfir þetta. Ég hef meiri áhyggjur af því að gera lið okkar betra fyrir næsta tímabil. Ég og Mike náum vel saman. Vonandi verður Mike hér í mörg ár í viðbót,“ sagði Tillman Fertitta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×