Körfubolti

San Antonio lagði Dallas

Dirk Nowitzki keyrir hér á Tim Duncan í leik Dallas og San Antonio í nótt, en annars var Þjóðverjinn sterki í góðri gæslu hjá Francisco Elson í leiknum
Dirk Nowitzki keyrir hér á Tim Duncan í leik Dallas og San Antonio í nótt, en annars var Þjóðverjinn sterki í góðri gæslu hjá Francisco Elson í leiknum NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir voru á dagskrá í NBA deildinni liðna nótt og voru þeir báðir sýndir beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Digital Ísland. San Antonio vann baráttusigur á Dallas í uppgjöri Texasrisanna og LA Clippers vann sigur á Denver þar sem Carmelo Anthony var hent út úr húsi.

San Antonio lagði Dallas 97-91 í spennandi leik á útivelli eftir að hafa verið undir nær allan leikinn. Sigurinn hefur eflaust verið leikmönnum San Antonio nokkuð mikilvægur því liðið tapaði fyrir Dallas í úrslitum Vesturdeildarinnar í vor í háspennu seríu sem var líklega sú besta í allri úrslitakeppninni.

Dirk Nowitzki skoraði 21 stig og hirti 11 fráköst fyrir Dallas, Josh Howard skoraði 20 stig og Jason Terry 14 stig. Hjá San Antonio var Tony Parker stigahæstur með 19 stig, Manu Ginobili skoraði 16 stig og Bruce Bowen og Tim Duncan skoruðu 13 stig, auk þess sem Duncan hirti 10 fráköst.

Dallas vann í fyrra alla 19 leikina þar sem Josh Howard skoraði 20 stig eða meira, en tapaði strax í fyrsta leik á þessari leiktíð þó Howard næði 20 stigum. San Antonio hefur aldrei tapað opnunarleik sínum síðan Tim Duncan kom til liðsins sem nýliði á sínum tíma.

LA Clippers vann nauman sigur á Denver 96-95 á heimavelli sínum, þar sem Carmelo Anthony var hent út úr húsi fyrir að fá tvær tæknivillur snemma í þriðja leikhluta. Þá fyrri fékk hann fyrir að tuða í dómara og þá síðari fyrir að henda ennisbandi sínu á völlinn þegar hann gekk í átt að varamannabekknum.

Hinn 37 ára gamli Sam Cassell var atkvæðamestur í liði Clippers með 35 stig og varamaðurinn Tim Thomas sem kom til liðsins frá Phoenix í sumar skoraði 21 stig. JR Smith skoraði 21 stig fyrir Denver, Marcus Camby skoraði 16 stig og hirti 18 fráköst og þeir Carmelo Anthony og Earl Boykins skoruðu 15 stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×