Skoðun

Leið­togi með reynslu, kjark og mann­lega nálgun

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Ég átti þess kost að vinna náið með Róberti Ragnarssyni tvö kjörtímabil í Grindavík. Ég tók meðal annars þátt í að ráða hann sem bæjarstjóra til starfa 2010 og síðar að endurráða hann 2014. Sú reynsla gefur mér sterkan grundvöll til að leggja orð í belg og lýsa þeirri forystu og fagmennsku sem Róbert hefur sýnt í störfum sínum.

Frá fyrsta degi sýndi Róbert mikla leiðtogahæfni og einstaka getu til að fá fólk með sér. Hann var skýr í sínum skoðunum, óhræddur við að segja hlutina eins og þeir voru, en jafnframt lausnamiðaður. Ofan á gagnrýna hugsun lagði hann nánast alltaf fram raunhæfar og skynsamar lausnir við þeim áskorunum sem við stóðum frammi fyrir.

Róbert er skynsamur, faglegur og markviss í störfum sínum. Hann skilur stjórnsýsluna, ferli ákvarðana og mikilvægi þess að vanda til verka. En hann hefur líka þann eiginleika sem oft gleymist en er gríðarlega mikilvægur – hann er skemmtilegur. Þeir sem starfa í stjórnsýslunni vita að húmor, gleði og mannleg nálgun eru ekki aukaatriði heldur algjörlega ómissandi þættir í góðu samstarfi og árangursríkri forystu.

Róbert hefur gegnt starfi bæjarstjóra í tveimur sveitarfélögum og farið þar með gott orðspor. Auk þess hefur hann starfað sem ráðgjafi fyrir langflest sveitarfélög landsins og tekið þátt í margvíslegum verkefnum, þar á meðal sameiningum sveitarfélaga. Það verkefni er meðal þeirra flóknustu sem hægt er að takast á við í opinberri stjórnsýslu, þar sem stjórnmál, fjármál, menning og mannleg samskipti þurfa að ganga upp samtímis. Þar nýtast yfirvegun, reynsla og hæfni Róberts sérstaklega vel.

Reynsla hans er mikil, breið og raunveruleg, mótuð af áralangri vinnu með fólki, fyrir fólk og í þágu samfélaga. Róbert hefur verið í Viðreisn frá 2016 þegar flokkurinn bauð fyrst fram krafta sína í þágu þjóðar.

Af þessum ástæðum hvet ég Viðreisnarfólk í Reykjavík eindregið til að setja Róbert Ragnarsson í 1. Sæti laugardaginn 31. janúar.

Reykjavík á skilið leiðtoga sem sameinar reynslu, fagmennsku, lausnamiðun og mannlega nálgun. Róbert er sá leiðtogi.

Höfundur var bæjarfulltrúi í Grindavík 2010-2018.




Skoðun

Sjá meira


×