Skoðun

Við erum hjartað í boltanum

Ásgeir Sveinsson skrifar

Nú styttist óðum í Evrópumót karla í handbolta og enn á ný sendum við íslenskt landslið til leiks á stærsta sviðinu. Það er ekki sjálfgefið, en það er orðinn hluti af sterkri og ómissandi hefð. Í yfir tuttugu ár hefur Ísland reglulega átt fulltrúa á stórmótum, EM, HM, og Ólympíuleikum og sú samfella segir sína sögu um gæði, metnað og menningu sem byggð hefur verið upp í kringum landsliðið okkar. Á bakvið þann frábæra árangur sem hefur náðst á undanförnum árum er þrotlaus vinna og metnaður leikmanna, þjálfara, starfsfólks og stjórnar HSÍ að ógleymdum okkar ómetanlegu styrktaraðilum sem sumir hverjir hafa styrkt HSÍ í áratugi.

Sterkt lið á sterku móti

Liðið okkar sem mætir til leiks að þessu sinni er sterkt, samstillt og hungrað í góðan árangur. Leikmenn og þjálfarateymi hafa lagt mikla vinnu og mikinn metnað í undirbúning fyrir mótið sem hefur verið markviss og faglegur, markmiðin eru skýr og mikil trú á verkefnið.

Við erum með hóp sem veit hvað þarf til að keppa við og sigra þá bestu og sem fyrr munu strákarnir okkar leggja allt í sölurnar til að ná árangri og markmiðum sínum.

EM í handbolta er eitt sterkasta handboltamót sem völ er á. Þar mætast bestu lið Evrópu og oft ræður dagsformið úrslitum. Allt getur gerst, og spennan verður áþreifanleg, en í ár eins og undanfarin er alveg á hreinu að íslenska liðið fer ekki inn á völlinn með lágar væntingar. Leikmenn, þjálfarar og reyndar þjóðin öll setja markið hátt eins og við eigum að venjast. Sú krafa og sá metnaður er jákvæður og drífandi hluti af því hver við erum þegar kemur að stöðu okkar í handboltaheiminum.

Stuðningur skiptir miklu máli

Nú sem fyrr skiptir miklu máli að við stöndum þétt við bakvið strákana okkar. Við skulum hvetja þá áfram, styðja þá í blíðu og stríðu og sýnum þá samstöðu sem íslenskt landslið á skilið. Stuðningur þjóðarinnar skiptir strákana miklu máli, hann finnst, hann skilar sér og hann getur gefið þann auka kraft sem þarf þegar mest á reynir. Eins og á fyrri mótum verður mikill fjöldi ískendinga í stúkunni og sá stuðningur og stemningin í höllinni verður ómetanlegur fyrir liðið okkar.

Ég hvet landsmenn alla til að fylgjast með, njóta og taka þátt. Óska leikmönnum, þjálfarateymi og öllum sem að liðinu koma velfarnaðar á mótinu og óska okkur öllum góðrar skemmtunar við að fylgjast með okkar frábæra liði á komandi EM móti í Svíþjóð.

Áfram Ísland.

Höfundur er formaður landsliðsnefndar HSÍ.




Skoðun

Sjá meira


×