Atvinnulíf

Al­geng meiðsli fótboltamanna varð kveikjan að appinu sem hún þróaði

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þegar Margrét Lilja Burrell var í sambúð með atvinnumanni í fótbolta og búsett í Noregi, velti hún því oft fyrir sér hvers vegna meiðsli fótboltamanna væru svona algeng, þrátt fyrir alla sjúkraþjálfarana, styrktarþjálfarana og fleira. Í kjölfarið fékk hún hugmyndina að Football Mobility appinu.
Þegar Margrét Lilja Burrell var í sambúð með atvinnumanni í fótbolta og búsett í Noregi, velti hún því oft fyrir sér hvers vegna meiðsli fótboltamanna væru svona algeng, þrátt fyrir alla sjúkraþjálfarana, styrktarþjálfarana og fleira. Í kjölfarið fékk hún hugmyndina að Football Mobility appinu. Vísir/Vilhelm

„Eiður Smári talaði nýlega í hlaðvarpinu Dr. Football um að hann væri verkjaður víða eftir ferilinn og gæti ekki hlaupið í dag. Þegar leikmaður sem hefur spilað á hæsta stigi segir þetta, þá sýnir það hversu miklar kröfur fótbolti gerir til líkamans,“ segir Margrét Lilja Burrell frumkvöðull og stofnandi Football Mobility og bætir við:

„Football Mobility snýst fyrst og fremst um að halda leikmönnum heilum á meðan þeir eru að spila – að þeir séu klárir í æfingar og leiki og þoli álagið sem fylgir nútíma fótbolta. En um leið er verið að byggja upp líkama sem endist líka eftir ferilinn. Þetta er kerfi sem styður leikmanninn í gegnum allan fótboltaferilinn – og lengra.“

Þótt Margrét hafi sjálf stundað Crossfit um árabil, hleypur og meira að segja nýbúin að hlaupa 100 kílómetra Gyðjuhlaupið fyrir norðan, voru fimleikar en ekki fótbolti hennar ær og kýr í æsku.

En búsett í Noregi, þá í sambúð með atvinnumanni í fótbolta, fór Margrét að hugsa:

Með allt þetta stuðningsnet í sjúkraþjálfun, styrktarþjálfun og fleira; hvers vegna eru meiðsli hjá fótboltafólki svona algeng?“

Það sem byrjaði sem teikningar og krot í bók er orðið að veruleika: Prótótýpa Football Mobility appsins er orðin til en formlega mun appið fara í prófanir fljótlega árið 2026, þegar fótboltastelpurnar í FHL byrja að nota það.

Frá hugmynd að veruleika

Þegar Margrét bjó í Noregi, notaði hún sjálf mikið appið Gowod, sem hún segir að upphaflega hafi verið þróað fyrir Crossfit fólk, en sé nú að þjóna stærri hópi íþróttafólks.

Eins og oft gerist þó þegar við erum virkir notendur að einhverju, erum við líka nösk á að læra kosti og galla.

„Til dæmis það þegar verið er að mæla með æfingum sem kalla á að þú sért liðugri en þú ert í raun. Þetta eru þá oft æfingar sem sýndar eru af einhverjum sem er mjög liðugur en eru þó æfingar sem hinn almenni notandi ræður ekki við.“

Útgangspunkturinn hennar var líka:

„Hvernig er hægt að hjálpa fótboltafólki að halda sér heilu allt tímabilið. Ekki aðeins að hjálpa þeim þegar meiðsli koma upp.“

Hugmyndin lét Margréti ekki vera. Sem þó viðurkennir að hafa enga þekkingu á forritun. Sem auðvitað þarf fyrir þróun á appi.

En hún lét ekki deigan síga. Teiknaði upp hugmyndina í lok árs 2022, þá enn í Noregi. Eftir að hún flutti til Íslands, leitaði hún sér aðstoðar hjá fyrirtæki sem þróaði fyrir hana prótótýpuna.

„Það var frekar fyndið hvernig það samstarf kom upp, því ég var eitthvað að tala um það í sundi að mig vantaði forritara og í kjölfarið tengdi vinkona mín sig við manninn sinn og fyrirtækið sem hann vinnur hjá,“ segir Margrét og bætir við:

„Ég mætti til þeirra á fund með stóra glærukynningu til að kynna hugmyndina. En var ekki nema hálfnuð með hana þegar þau sögðu: Þú þarft ekki að klára þetta. Hugmyndin er brilliant og engin spurning að við liðsinnum þér.“

Staðan núna er því sú að sjálft appið er áætlað í loftið í ársbyrjun 2026. Þar sem fyrsti prófunarhópur appsins verða fótboltastelpurnar í FHL.

Það er ekkert svo auðvelt að vera frumkvöðull í samfélagi sem finnst helst allir eiga vera annað hvort í námi eða vinna hefðbundna vinnu. Nýsköpun tekur hins vegar mikinn tíma og orku og segir Margrét léttustu leiðina í raun felast í að gefast upp. Hugrekkið felist í því að láta á hlutina reyna.Vísir/Vilhelm

Álag og endurheimt

Margrét segir að þar sem fótbolti sé endurtekinn álagsíþrótt, sé eðlilegt að íþróttin skapi stífleika og yfirálag. Til dæmis í mjöðmum, nára, hásinum, ökklum eða mjóbaki.

Það sem skipti samt mestu máli er að þjálfa líkamann til þess að þola álagið, en það er gert með hreyfanleika og endurheimt en líka viðhaldi og það sé síðastnefnda atriðið sem fæstir gera nógu vel.

Með Football Mobility appinu, geti fótboltafólk fylgt þessu betur eftir, með teygjum og æfingum í símanum. Endurheimtin verði þannig jafn mikilvæg og æfingarnar sjálfar.

Margrét segir flesta leikmenn vita hvað þeir eigi að gera. En ekki endilega hvernig. Margir fái lista, þar sem til dæmis kemur fram að allir eigi að teygja eftir æfingar og svo framvegis. En oft sé engin skýr leið og því komist þessi endurheimt ekki að því að verða rútína heldur gleymist.

Álagið á líkamann safnast upp og hringrásin helst áfram óbreytt.

Með Football Mobility sé hægt að koma í veg fyrir meiðsli með stuttum raunhæfum rútínum sem taka 5-10 mínútur. Æfingar sem hægt er að gera heima, í búningsklefanum, eftir æfingu; Engin afsökun, æfingarnar passi inn í daginn.

Þannig segir Margrét appið byggja á forvörnum í staðinn fyrir að vinna alltaf út frá ,,bata eftir á.“

Að demba sér í nýsköpun, segir Margrét þó kalla á ákveðið hugrekki.

„Ég upplifði alveg að vera feimin við að þora að taka skrefið. Hugsaði með mér: Á ég virkilega að hætta að vinna venjulega vinnu og fara að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður?“ segir Margrét og brosir.

„Það er líka auðvelt að gefast upp. Ég til dæmis sótti um Ranníssstyrki en fékk enga. Ég sótti líka um Gulleggið og komst ekki inn. Í hitteð fyrra sótti ég líka um Startup Supernova og hlaut ekki brautargengi.“

Margrét gafst samt ekki upp og nú er staðan allt önnur.

Því hún tók þátt í Startup SuperNova í haust, var valin ein af tíu fyrirtækjunum til að gera það. Sem hún segir hafa verið frábæra reynslu og lærdóm. Þá er hún að aðstoða KLAK með Gulleggið á TikTok.

Í spjallinu er ljóst að Margrét er komin á kaf í heim nýsköpunar og frumkvöðla; sem þó er heimur sem ekki allir skilja.

„Nei, enda skráði ég mig í skóla um tíma því samfélagið er í raun þannig að fólk vill helst að maður sé að vinna eða í skóla. Er ekki að skilja vinnuna sem felst í því að vera að búa til eitthvað nýtt og hvað það er margt sem þarf að gera til þess að eitthvað gangi upp eða verði að veruleika,“ segir Margrét og bætir við:

„Um tíma fór ég í Skapandi greinar á Bifröst en ég áttaði mig fljótt á því að námið átti ekki við mig. Í sumum áföngum fannst mér tíminn nýtast illa miðað við það sem ég var sjálf að vinna að, og námið var of fræðilegt miðað við þann hraða og framkvæmd sem ég sækist, fannst ég vera að læra miklu meira á eigin skinni með því að vera sjálf að basla við að koma minni vöru á koppinn.“

Þótt Margrét hafi nýverið lokið 100 km Gyðjuhlaupinu segist hún upplifa þátttöku sína í Startup SuperNova sem enn stærri áfangasigur. Það kalli á þrautseigju og seiglu að byggja upp vöru og stefna á útrás.

Að vera frumkvöðull

Að vera frumkvöðull á Íslandi er nefnilega ekkert endilega svo auðvelt. Og hér er þá ekki verið að vísa í hvort regluverkið í kringum nýsköpunarumhverfið, styrkir og svo framvegis, sé nógu gott. Heldur það hvernig samfélagið bregst við eða styður við frumkvöðla.

„Ég er svo heppin að fá að búa hjá mömmu og pabba sem hafa stutt mig ótrúlega mikið,“ segir Margrét um þessi mál.

„En fólk gerir svolítið þá kröfu á alla að vera í skóla eða vinnu, annars er eins og þú sért ekki að gera neitt.“

Sem í heimi frumkvöðla er alls ekki raunin.

„Það sem ég ákvað að gera var að hlusta ekki á þessar raddir, heldur frekar að horfa á þær fyrirmyndir sem ég hef í umhverfinu og tala við þær.“

Margrét nefnir tvær konur sérstaklega: Ingu Tinnu Sigurðardóttur stofnanda og forstjóra Dineout og Helga Sigrún Hermannsdóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi DottirSkin.

Þær eru algjörir naglar. Inga er dæmi um konu sem kann ekki að forrita sjálf og hefur sagt frá því í viðtölum að fólk hafi sagt við hana með algerri vantrú: Þykist þú ætla að breyta einhverju í veitingahúsageiranum? 

Sem hún og gerði, enda algjör drottning í því sem hún er að gera.“

Það sama á við um Helgu Sigrúnu í DottirSkin.

„Ég hef talað mikið við hana og þau samtöl hafa reynst mér mjög vel. Ég er líka svo heppin að eiga vinkonur sem eru mér miklar fyrirmyndir og við lyftum hvor annarri upp; ef ég fer eitthvað að efast minna þær mig á hvað ég er komin langt og spyrja hvort ég ætli virkilega að hætta núna.“

Margrét segir fólk líka oft ekki fatta, hversu mikið það reynir á frumkvöðla að hafa seigluna til að halda áfram. Auðveldast sé að gefast upp og hætta.

Þar sé líka mannlegt að fara ósjálfrátt að búa sig undir höfnun.

„Ég til dæmis man eftir því þegar ég fékk tölvupóst um þátttöku í síðasta Startup SuperNova. Sem byrjaði á einhverjum formlegum texta sem ég var svo sannfærð um að væri til að búa mig undir að ég hefði því miður ekki komist í gegn,“ segir Margrét og bætir við:

„Sem betur fer lokaði ég ekki tölvunni, heldur hélt áfram að lesa. Enda var tölvupósturinn að tilkynna mér að ég væri ein af 15 sem hefði verið valin til að mæta í viðtal áður en topp tíu listinn yrði valin endanlega.“

Sem Margrét tilheyrði.

„Og þegar maður er að vinna að svona verkefni, finnst manni áfangasigrar eins og Startup SuperNova vera það stærsta sem maður hefur komist í. Ég heyri til dæmis oft á fólki að þeim finnist rosalegt að ég hafi klárað 100 kílómetra Gyðjuhlaupið. Fyrir mér var það þó enn stærri áfangi að hafa tekið þátt í Startup SuperNova.“

Margrét segist frekar ætla að horfa á sterkar fyrirmyndir til að byggja sig upp og halda áfram, frekar en að láta berja sig niður af efasemdarfólki sem fæst hefur reynt fyrir sér í nýsköpun eða rekstri. Inga Tinna í Dineout, Helga Sigrún og Annie Mist í Dottir Skin eru nefndar sérstaklega; algjörir naglar.Vísir/Vilhelm

Að vera með sterk bein

Flestir frumkvöðlar eru snemma í leit að fjármagni og fjárfestum.

Auðheyrt er á tali við Margéti að hún er ekki alveg þar.

„Ég myndi að minnsta kosti vilja velja þá aðila mjög vel og aðeins fá einhvern inn ef viðkomandi væri einhver sem ég gæti haft aðgang að og gæti stutt við mig og bætt virði vörunnar. Ég hef engan áhuga á að fá einhvern inn bara vegna peninganna,“ segir Margrét og útilokar þannig ekki neitt.

En hvernig hefur þú farið að því að lifa; borga reikninga og svo framvegis?

„Ég hef fjármagnað sjálfan mig og reksturinn með því að selja dýnur sem eru þær bestu í heimi,“ svarar Margrét og lýsir þykkum æfingardýnum sem eru svo góðar að á þeim þarf enginn að vera með hnépúða.

„Í þessari sölu hafa sumir tekið mér óskaplega vel á meðan aðrir kannski síður.“

Tekjumódelið fyrir Football Mobility er hugsað sem áskriftarmódel. Svona eins og gengur og gerist með flest sambærileg öpp í heiminum.

„Til að byrja með er ég að horfa á klúbbana. Því fótboltafólk velur svolítið í hvaða klúbbum það vill vera og þá getur það verið liður í því sem klúbbarnir bjóða upp á fyrir sína iðkendur, að vera með Football Mobility appið sem lið í sinni þjónustu, til viðbótar við sína sjúkraþjálfara, styrktarþjálfara og fleiri,“ segir Margrét og bætir við:

„Appið er í raun liður í því líka að þjálfa fólk í að bera meiri ábyrgð á sjálfum sér.“

Margrét segir það seinna tíma mál að útfæra appið fyrir hinn almenna notanda.

„Ég byrja núna með prófanirnar og FHL og það má því segja að fyrsta verkefnið nú sé að tékka á því hvort varan sé ekki örugglega að virka vel og þróa hana áfram fyrir notendur.“

Sérðu fyrir þér að Football Mobility fari í útrás?

Já, tekjumódelið er þannig að ég horfi fyrst á klúbbana en ekkert síður að erlendis verði það klúbbar og háskólar sem taki það inn til sín fyrir sína iðkendur.“

Margrét segist líka þakklát stuðningi aðila eins og FH. Félagið hafi leyft henni að taka upp æfingar fyrir appið, stuðningur sem þessi sé mikilvægur fyrir frumkvöðla og nýsköpun.

Margrét segist líka hafa lært það á ferlinu að mestu skipti að hafa trú á sjálfum sér og vörunni.

„Ég hef til dæmis tamið mér að spyrja allra spurninga sem ég tel mig þurfa svör við, óháð því hvort öðru fólki finnist þær heimskulegar. Ef ég veit ekki eitthvað, vil ég frekar spyrja að því en að þora ekki að spyrja,“ segir Margrét og bætir við:

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir aðra og ég vona að mín saga geti sýnt að þú þarft ekki samþykki annarra til að skapa eitthvað af alvöru. Stundum kemur skilningurinn seinna, eftir að þú þorir að spyrja.“

Margrét er ákveðin í að horfa frekar til þeirra sem hafa afrekað margt en þá sem efast.

„Ég er óhrædd við að sækja mér innblástur frá öðrum sterkum frumkvöðlum, Annie Mist og fleirum. Ekki bara konum, heldur öllum sem hafa verið að gera góða hluti. 

Og þegar ég finn að fólk horfir á mig eins og ég sé ekki að gera neitt af alvöru, er ég farin að verða betri í því að hugsa: 

Ókei, þetta er bara manneskja sem hefur aldrei prófað það sjálf að búa neitt til eða standa í þessu. Ég ætla því ekki að láta þessa manneskju berja mig niður.“


Tengdar fréttir

Draumar rætast: „Lengi skammaðist ég mín ...“

„Ég held að uppeldið hafi skipt þar miklu. Foreldrar mínir hafa alltaf sagt að ég gæti gert allt sem ég vil. Sem þó var ekkert alltaf auðvelt. Til dæmis ætlaði ég að verða læknir en ákvað að taka pásu í háskóla og stefna að því að verða atvinnumaður í CrossFit,“ segir Annie Mist Þórisdóttir, fyrrum heimsmeistari í CrossFit og einn af stofnendum nýsköpunarfyrirtækisins Dottir Skin.

„Ég fékk oft að heyra að þetta væri nú frekar bjartsýnt hjá mér“

„Ég hafði stofnað fyrirtækið Icelandic Coupons, sem er afsláttarapp fyrir ferðamenn og Íslendinga árið 2015. Í þeirri vegferð var ég mikið að funda á veitingahúsum landsins. Mér fannst ótrúlegt að sjá hvað voru margar aðferðir notaðar við að halda utan um borðabókanir. Sumir voru með stílabækur, aðrir voru að notast við Word í tölvum og enn aðrir við erlend bókunarforrit og svo framvegis,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Dineout um aðdragandann að því að Dineout var stofnað.

Gervigreindin Bella að spara heilu vinnudagana í bókhaldi

„Við ákváðum að byrja á því að þróa okkar lausn fyrir DK bókhaldskerfið því það er í notkun hjá yfir þrjátíu þúsund fyrirtækjum á Íslandi.,“ segir Erla Símonardóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Bella Books.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×