Atvinnulíf

Jafn­vægi heimilis og vinnu: „Lífið er meira en titill“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sigurlaug Helga Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Festi, segir allt of marga lenda í kulnun eða vera hættulega nálægt því. Það kalli á ákveðið hugrekki að segja upp og leita á ný mið. Það hafi hún þó gert og hún sjái líka ekki eftir því.
Sigurlaug Helga Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Festi, segir allt of marga lenda í kulnun eða vera hættulega nálægt því. Það kalli á ákveðið hugrekki að segja upp og leita á ný mið. Það hafi hún þó gert og hún sjái líka ekki eftir því. Vísir/Anton Brink

„Ég held ég hafi haldið þegar ég var yngri að jafnvægi væri áfangastaður sem ég kæmist á,“ segir Sigurlaug Helga Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Festi, og hlær.

„En auðvitað lærðist manni seinna að jafnvægið er eitthvað sem maður þarf alltaf að vera að vinna í og rækta.“

Því já; það að tala um jafnvægi á milli heimilis og vinnu getur alveg þýtt að stundum þurfum við sjálf að stokka upp spilin og gefa upp á nýtt.

Í tilfelli Sigurlaugar fólst uppstokkunin í því að segja upp draumastarfinu sínu. Að forgangsraða upp á nýtt og átta sig á því hvað henni finnst skipta mestu máli í lífinu.

„Það skiptir miklu máli að jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé ekki bara orð á pappír hjá vinnustöðum heldur raunveruleikinn. 

Að starfsmenningin geri ráð fyrir fjölskyldulífinu með vinnunni. Staðreyndin er nefnilega sú að stuðningur á vinnustað vegur jafnt og stuðningurinn heima fyrir. 

Þetta er samspil sem þarf að virka.“

Að Sigurlaug hafi valið Festi sem sinn nýja vinnustað þarf kannski ekki að koma á óvart.

„Forstjóri Festi hefur talað opinskátt um að hún sæki oft börnin í leikskólann upp úr klukkan fjögur á daginn. Ekki vegna þess að vinnudeginum lýkur þá – það er nú sjaldnast þannig. Vinnan heldur áfram heima en þá eftir því hvað hentar best og aðstæður leyfa,“ segir Sigurlaug og bætir við:

„Munurinn er að það gerist út frá sveigjanleika og trausti, ekki pressu. Strax í atvinnuviðtalinu áttaði ég mig einmitt á þessu. Að í þessu starfi væri mér treyst fyrir mínu án þess að ætlast væri til þess að á skrifstofunni sæti ég langa vinnudaga, jafnvel þannig að ég væri sú síðasta út. Það væri einhvers konar merki um dugnað.“

Einu sinni þótti Sigurlaugu fátt skemmtilegra en að þeysast um allar trissur á Honda-krossara. Í dag segir hún hápunktana vera þegar börnin hennar skellihlæja, eiginmaðurinn bakar og þegar hún heyrir uppþvottavélina slökkva á sér. 

Draumastarf eða draumavinnustaður?

Sigurlaug starfaði hjá Slitanefnd Kaupþings og Húseigendafélaginu þegar hún var í lögfræðináminu. Árið 2014 útskrifaðist hún úr meistaranáminu sínu og það árið hóf hún störf hjá Reitum, þar sem hún síðar varð yfirlögfræðingur og regluvörður. Síðustu níu árin hefur hún líka verið viðloðandi Kærunefnd húsamála, fyrst sem varamaður, nú sem varaformaður.

„Það eru allt öðruvísi verkefni en mjög gefandi líka,“ segir Sigurlaug og brosir.

Sigurlaug hefur setið í nokkrum stjórnum og segist líka hafa gaman af því að styðja við bakið á nýsköpunarfyrirtæki stjúppabba síns. Þá hafa hún og eiginmaðurinn, Gísli Freyr Ólafsson viðskiptafræðingur, bæði leyfi til að gera eignaskiptayfirlýsingar fyrir fasteignir.

„Og við höfum stundum „dundað“ okkur við slík verkefni í frítímanum,“ segir Sigurlaug og hlær.

Sigurlaug segir það því aldrei hafa vafist fyrir sér að vinna mikið. Staðreyndin sé hins vegar sú að þegar lífið breytist, breytast lífsviðhorfin líka og það sem okkur fannst kannski áður frábært er það ekki lengur.

Á pappírum var gamla starfið mitt draumastarfið. 

En lífið mitt hafði breyst og eitt af því sem maður áttar sig á þegar maður spyr sig stóru erfiðu spurninganna er að lífið er meira en titill. 

Margt í nærumhverfi starfsins gerði það ekki raunhæft til lengdar.“

Þannig áttaði Sigurlaug sig á því að á endanum yrði fórnarkostnaðurinn eflaust heilsan og fjölskyldan.

„Mér finnst mjög margir í kringum mig hafa lent í kulnun eða vera hættulega nálægt því. Umræðan er líka alltaf sú að þrauka, halda þetta út. Ég taldist í þeim hópi líka, því þannig hugsaði ég lengi vel,“ segir Sigurlaug og bætir við:

„Í dag er ég mjög stolt af því að hafa hlustað á innsæið mitt, áður en líkaminn minn hreinlega neyddi mig til þess.“

Sigurlaug hóf störf hjá Festi þann 1. september síðastliðinn. Og það er auðheyrt að hún upplifir sig á draumavinnustaðnum. Sem hún telur fólk horfa meira til í vali sínu á vinnumarkaði en áður.

„Þetta endurspeglar það sem við sjáum meira og meira hjá yngra fólki á vinnumarkaði: að góð menning, starfsandi og jafnvægi vegi oft þyngra en að elta hæstu launin.“

Sigurlaug segir mikilvægt að vinnustaðir styðji við jafnvægi einkalífs og vinnu í raunveruleikanum en ekki aðeins á pappír. Hún telur ungt fólk í sífellt meira mæli horfa til þess hvernig starfsandi og jafnvægi er á vinnustöðum frekar en að eltast við hæstu launin.Vísir/Anton Brink

Sjálfskoðun og hugrekki

Vikulega sjáum við fréttir um fólk sem er að hefja störf á nýjum vinnustað. Að taka ákvörðun um að skipta um starf er hins vegar stór ákvörðun.

Líka þegar fólk einfaldlega ákveður að segja upp og færa sig um set.

„Ég hefði að minnsta kosti alveg verið til í að lesa viðtal við einhvern um þetta ferli,“ segir Sigurlaug og hlær.

Sigurlaug segist hafa lært margt á þessari sjálfskoðun. Til dæmis um það að þora.

Í gegnum þetta ferli lærði ég að hugrekki felst stundum ekki í því að þrauka lengur heldur í því að staldra við, líta inn á við og spyrja sjálfan sig erfiðari spurninga og taka stórar ákvarðanir.“



En þótt reynslan hafi verið dýrmæt var hún ekki auðveld.

„Að taka ákvörðun um að hætta fannst mér erfið ákvörðun. Þetta var eins og að ganga út um dyr sem ég hafði alltaf talið að ég ætti að vilja vera innan.“

Þegar ákvörðunin hafði verið tekin upplifði Sigurlaug samt mikinn létti; einmitt tilfinninguna sem oftast staðfestir við okkur að við séum að breyta rétt.

Sjálfskoðun skilar því oftast líka því að lífsviðhorfin, gildin, framtíðarsýnin og forgangsröðunin verður skýrari.

Sem dæmi segir Sigurlaug:

„Ég vil halda jafnvægi milli vinnu og vellíðunar. Sem fyrir mig snýst um að hlusta á líkamann og hausinn, hreyfa mig, borða vel og leyfa mér að taka fótinn af bensíngjöfinni þegar þess þarf. Þá næ ég að vera bæði úthaldsgóð og einbeitt í vinnunni.“

Þó þurfi í öllu að nota húmorinn líka.

„Að geta hlegið að sjálfri mér gerir mig jarðbundnari og hjálpar mér að takast á við álag.“

Einu sinni gekk allt út á að ferðast á milli heimsálfa og leita af nýjum ævintýrum. En áhugamálin breytast og það sama gerist í viðhorfi til starfsumhverfisins þegar lífið breytist og það lærist að jafnvægi heimilis og vinnu er ekki áfangastaður sem maður endar á, heldur þarf að rækta. 

Þriðja vaktin

Sigurlaug og Gísli eiga þrjú börn: 2 ára, 5 ára og fyrir átti Gísli dóttur sem nú er 16 ára.

„Bónusdóttirin kom okkur hjónunum upp á það í seinni bylgju Covid að spila Fortnite. Hún hætti svo fljótlega sjálf – eins og flottir unglingar gera – en eftir sátum við hjónin, orðin Fortnite-par!“

Og eins og góðum lögmanni sæmir stundar hún golfið að einhverju kappi og er þá ótalið að nefna skíðin líka.

Það kom Sigurlaugu á óvart hvað henni fannst erfitt að segja upp gamla starfinu. Enda hafi það verið draumastarf. Sjálfskoðun fylgi ferlinu en í þeirri sjálfsvinnu hafi hún líka áttað sig á því að jafnvægi snýst fyrst og fremst um að velja það sem skiptir mestu máli í lífinu.Vísir/Anton Brink

Verkaskiptingin heima fyrir er góð og þau hjónin meðvituð um þriðju vaktina.

„Við erum jafningjar og verkaskiptingin byggir á því hvað hvor okkar er best í og hefur orkuna í, en ekki á einhverjum gamaldags kynjahlutverkum. 

Hann sér til dæmis alfarið um baksturinn á heimilinu. Ég veit að dagurinn verður extra góður þegar hann fer í bökunargírinn — þá þarf ég bara að finna ilminn og allt stress gufar upp.“

Áhugamálin hafa líka breyst. Því hér á árum áður fannst Sigurlaugu fátt jafn skemmtilegt og að þeysast um allar trissur.

„Ég hjólaði um á fjórgengis Hondakrossara, ferðaðist á milli heimsálfa og var alltaf á fleygiferð í leit að ýmsum ævintýrum,“ segir Sigurlaug og hlær.

Nýorðin 37 ára segir Sigurlaug hins vegar:

„Í dag finnst mér best að vera heima með börnunum mínum og manninum mínum – sérstaklega þegar hann er í stuði og bakar. Þá næ ég friði, ró og núllstillingu.“

Talið berst aftur að jafnvæginu góða.

„Jafnvægi er ferli sem breytist með lífskeiðum, aðstæðum og forgangsröðun. Stundum er maður á fullri ferð og það hentar, en á öðrum tímum þarf maður meira rými fyrir kyrrð, endurheimt og einfaldleika,“ segir Sigurlaug og bætir við:

Ég hef lært að jafnvægi snýst ekki um að hafa allt á hreinu heldur um að velja það sem gefur lífinu gildi og skiptir mestu máli.“


Tengdar fréttir

„Með því að leyfa mér að hlusta á hjartað mitt, fylltist ég eldmóði og ástríðu“

„Ég lofaði danskri vinkonu minni að eftir forsetaframboðið myndi ég ekki stökkva strax í næsta starf, að ég myndi gefa mér að minnsta kosti ár til að hugsa vel hvað tæki við yrði ég ekki forseti. Þetta var gott ráð því eftir framboðið buðust mér áhugaverð hlutverk og eftir um níu mánuði var ég nánast búin að ganga frá ráðningu í spennandi starf í Bandaríkjunum en þá vildi svo til að ég ökklabraut mig,“ segir Halla Tómasdóttir, forstjóri og fyrrum forsetaframbjóðandi.

Jafnræði heima fyrir en ekki vitlaust að setja sér reglur og mörk

Við tölum oft um jafnvægi heimilis og vinnu, veltum fyrir okkur hvort vinnustaðir teljist fjölskylduvænir, hvort jafnræði ríki á milli kvenna og karla í uppeldis- og heimilisverkum og mikilvægi styttingu vinnuvikunnar. En hvað segja ungu foreldrarnir sjálfir sem stunda fulla vinnu, samhliða því að ala upp ung börn, byggja upp heimili, láta sig umhverfismálin varða og lifa á tímum samfélagsmiðla?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×