Skoðun

Kæru sam­borgarar, ég er á­stæðan fyrir mögu­legum skertum lífs­gæðum ykkar

Andri Valgeirsson skrifar

Andri heiti ég og ég er 40 ára fatlaður Reykvíkingur, ég er með NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) og er ég einnig vondi kallinn sem gæti mögulega skert lífsgæði ykkar hinna samkvæmt Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra Reykjavíkur.

Þó að ég sé vondi kallinn að þá hef ég samt voða lítið gert til að verðskulda þann titil. Það eina sem ég hef krafist er að réttindi mín séu virt jafnt við ykkar réttindi. Áður en ég fékk NPA samning 2018 hafði ég beðið í 10 ár eftir þjónustu til að lifa sjálfstæðu lífi, en þjónustan sem ég var með tryggði mér ekki þá aðstoð sem ég þurfti til að stunda það nám eða vinnu sem ég vildi. Lífið mitt gjörbreyttist þegar ég fékk NPA sem ég þurfti til að lifa sjálfstæðu lífi. Í dag er ég með menntun, ég er í fullri vinnu, ég á eiginkonu og ég rek mitt eigið heimili, sem væri allt ómögulegt án þjónustu eins og NPA.

Í dag eru 42 einstaklingar á biðlista eftir að fá NPA samning eða stækkun frá Reykjavíkurborg. Samningar sem munu án efa hafa sömu áhrif og minn samningurinn gerði. Samningar sem gefa fólki jafnt tækifæri og okkur hinum til að lifa sjálfstæðu lífi, sem mun gjörbreyta lífi fólks til hins betra.

Fatlað fólk er oft notað í pólitískum útspilum stjórnmálafólks sem oftast tengjast peningum. Oft er fötluðu fólki stillt upp við vegg og heyrum við setningar eins og „Þjónusta fatlaðra kostar X mikinn pening“ og „Þetta gæti haft áhrif á getu sveitarfélagsins til að veita aðra þjónustu“ en aldrei hef ég heyrt eins taktlausa og smekklausa setningu og Heiða Björg sagði þegar hún hótar skertum lífsgæðum í samfélaginu láti ríkið ekki undan kröfum sveitarfélaganna um aukið fjármagn í málefnaflokk fatlaðra. Aldrei hef ég heyrt borgarstjóra tala svona um aðra málaflokka borgarinnar og því velti ég því mjög oft fyrir mér af hverju það er í lagi að tala svona um fatlað fólk. Við erum ekki eingöngu tölur á blaði. Við erum fólk, við erum samborgarar. Við erum ekki vondi kallinn!

NPA hefur verið í lögum frá árinu 2018 og frá árinu 2016 hafa sveitarfélögin verið að undirbúa lögfestingu NPA með því að samþykkja örfáa samninga. Málaflokkurinn um málefni fatlaðs fólks var fluttur frá ríki til sveitarfélaga 2011. Það er því ekki hægt að segja að þessi málaflokkur sé nýr af nálinni og alls ekki hægt að kenna hinum ný-lögfesta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks um slæma stöðu sveitarfélaganna.

Ég vil vekja athygli á þessari ömurlegu orðanotkun stjórnmálafólks og ég vil að það hætti að tala um hversu dýr þessi málaflokkur er. Allir málaflokkar eru dýrir og ekki talið þið svona um aðra málaflokka.

Höfundur er NPA verkstjórnandi.




Skoðun

Sjá meira


×