Skoðun

Á rauðu ljósi í Reykja­vík

Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar

Það hefur lengi verið meginregla að setja gönguljós yfir miklar umferðargötur til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þótt þessi nálgun virki einföld og örugg fylgja henni ýmsir ókostir. Langar raðir bíla geta myndast vegna eins eða fárra gangandi eða hjólandi vegfarenda þegar gönguljós stöðva heilu akreinarnar. Þetta veldur auknum eldsneytisbruna, meiri mengun og auknum pirringi í umferðinni. Göngubraut yfir Miklubraut við Klambratún er dæmi um þetta.

Snjallstýrð gönguljós

Til að bregðast við löngum biðtíma á ljósum er farið að nota snjallstýrð gönguljós sem skynja umferð og eiga að haga sér eftir því. Þannig búnaður var settur upp við gatnamót Bíldshöfða og Breiðhöfða í sumar. Slíkar ljósastýringar skipta miklu máli varðandi flæði gangandi vegfarenda og umferðar ökutækja og stytta biðtíma beggja.

Hins vegar má einnig velta fyrir sér hvort beina eigi gangandi og hjólandi vegfarendum þvert yfir mestu umferðargötur borgarinnar, þrátt fyrir kosti snjallstýrðra ljósa.

Hugsun til framtíðar

Þegar bæta á bæði öryggi vegfarenda og umferðarflæði þarf að hugsa lengra en til hefðbundinna ljósastýringa. Undirgöng og göngubrýr yfir helstu stofnæðar tryggja mun meira öryggi og fljótlegri tengingar án þess að trufla bílaumferð. Reykjavíkurborg hefur nú þegar byggt töluvert af brúm fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem fyrir löngu hafa sannað gildi sitt, nú síðast yfir Sæbraut.

Meiri kostnaður - en meira öryggi

Stofnkostnaður við göngubrýr og undirgöng er töluverður í upphafi en ávinningurinn í skilvirkni og öryggi til lengri tíma er augljós. Með vaxandi umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu þarf að skoða allar leiðir sem draga úr árekstrum ólíkra ferðamáta. Bættar almenningssamgöngur og góður aðgangur að bílastæðum við samgöngumiðstöðvar skipta líka máli. Það myndi gera fleirum kleift að skilja bílinn eftir heima og ferðast með öðrum hætti um borgina.

Ef markmiðið er öruggari, skilvirkari og vistvænni borg til framtíðar er kominn tími til að hugsa stærra. Beina þarf umferð gangandi og hjólandi vegfarendum frá umferðarþyngstu götum án þess að lengja leiðir þar sem því verður viðkomið.

Höfundur er 1. varaborgarfulltrúi Flokks fólksins og fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×