Innlent

Telja sig vita hverjir grímuklæddu mennirnir eru

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin átti sér stað á sjöunda tímanum í gærkvöldi á göngustíg milli efra og neðra Breiðholts.
Árásin átti sér stað á sjöunda tímanum í gærkvöldi á göngustíg milli efra og neðra Breiðholts. Vísir/Ívar Fannar

Lögreglunni hafa borist upplýsingar um hverjir sex grímuklæddir menn sem réðust á einn í Breiðholti í gærkvöldi eru. Til stendur að kalla þá til yfirheyrslu vegna líkamsárásarinnar.

Sagt var frá árásinni í dagbók lögreglunnar í morgun en þar kom fram að hópur grímuklæddra manna hefði ráðist á mann með höggum og spörkum. Þá kom einnig fram að sá sem ráðist var á hafi verið fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Árásin átti sér stað á sjöunda tímanum í gærkvöldi á göngustíg milli efra og neðra Breiðholts, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Málið er í rannsókn og getur lögreglan ekki sagt til um tilefni árásarinnar enn.

Svo virðist þó sem að betur hafi farið en á horfðist og hlaut maðurinn sem ráðist var á marbletti og bólgur en engin beinbrot eða alvarlegri áverka. Hann fór til síns heima eftir aðhlynninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×