Viðskipti innlent

Bætir við sig nýjum á­fanga­stað á Ítalíu

Atli Ísleifsson skrifar
Borgin er þriðji áfangastaður Icelandair á Ítalíu, ásamt Róm og Mílanó.
Borgin er þriðji áfangastaður Icelandair á Ítalíu, ásamt Róm og Mílanó. Vísir/Vilhelm

Icelandair mun hefja flug til Feneyja á Ítalíu næsta sumar. Flogið verður þrisvar í viku frá 22. maí til 18. október, á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum. Borgin er þriðji áfangastaður Icelandair á Ítalíu, ásamt Róm og Mílanó.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir að Feneyjar séu afar vinsæll ferðamannastaður með einstaka sögu og menningu sem laði að ferðamenn alls staðar að úr heiminum. 

„Borgin er byggð á 118 eyjum og tengd með brúm og síkjum, sem gerir hana að einni sérkennilegustu og rómantískustu borgum Evrópu. Þar má finna ríkulega sögu, glæsilega byggingarlist og fjölbreytta menningu – allt frá gotneskum dómkirkjum til líflegra markaða og listahátíða.

Einnig verður flug til sólaráfangastaða aukið næsta sumar sem og flug til vinsælla áfangastaða á Norðurlöndum og þriggja áfangastaða í Norður-Ameríku, Nashville, Baltimore og Denver. Þá verður flug til Edinborgar nú í boði allt árið, í stað þess að vera einungis hluti af vetraráætlun og jafnframt verður flogið til Malaga allt árið utan janúar og febrúar,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið haldi áfram að þróa leiðakerfið í takt við þarfir og óskir viðskiptavina. „Sveigjanlegt og öflugt leiðakerfi gerir okkur kleift að bregðast hratt við breytingum á markaði og bæta við spennandi áfangastöðum eins og Feneyjum. Við sjáum tækifæri í því að auka hlutfall farþega til og frá Íslandi og endurspeglast það í því að við aukum sérstaklega tíðnina til sólaráfangastaða, Norðurlanda og valinna áfangastaða vestanhafs,“ segir Bigi Nils.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×