Skoðun

Um­bóta á námi fanga enn beðið

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Menntun er lykill að farsælli samfélagsþátttöku eftir afplánun fangelsisdóma. Þetta er staðreynd sem hvergi er mótmælt. Engu að síður hafa íslenskir menntamálaráðherrar um áraraðir brugðist þegar kemur að því að tryggja fullnægjandi námsframboð og aðgengi í fangelsum landsins. Ítrekað hefur verið kallað eftir stefnu í málaflokknum og Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni árið 2023 brýnt að stjórnvöld marki stefnu um menntun fanga og aðgerðaráætlun um hvernig megi auka möguleika til náms í fangelsum landsins. En ekkert breytist.

Afstaða, veit til þess að vinna hefur átt sér stað í menntamálaráðuneytinu við að móta tillögur til að efla nám fanga, með sérstakri áherslu á kvenfanga, unga fanga og erlenda fanga. Þessar tillögur liggja á borði menntamálaráðherra og bíða þess að verða lagðar fyrir ríkisstjórn til samþykktar. Í þessum tillögum felst engin stefnubreyting eða aðgerðaráætlun heldur er um að ræða hóflegar, og ódýrar, leiðir til þess að setja plástur á svöðusárið sem nám fanga er.

Á sama tíma og Afstaða harmar að skrefið verði ekki stigið til fulls í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar styður félagið allar góðar hugmyndir og hvetur því Guðmund Inga Kristinsson, menntamálaráðherra, til þess að leggja tillögurnar formlega fram og hefja innleiðingu þeirra. Félagið treystir á að þær leiði til markvissra umbóta og verði vegvísir stjórnvalda á leið sinni til að nútímavæða fangelsiskerfið. Þannig sigrar samfélagið til lengri tíma litið.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga.




Skoðun

Sjá meira


×