Skoðun

Hæfni­viðmið eða tölu­legar ein­kunnir, hvað segir okkur meira um nám?

Bryngeir Valdimarsson skrifar

Í umræðu um menntun hefur lengi verið horft til mælinga sem mælikvarða á árangur. Einkunnir, próf og meðaltöl eru orð sem margir tengja við skólastarf. Þær eru einfaldar í framsetningu og auðvelda samanburð milli nemenda og skóla. En tölurnar sýna aðeins hluta myndarinnar. Þær segja ekki til um hvernig námið fer fram, hvað nemandi skilur í raun eða hvernig hann nýtir þekkinguna.

Hæfniviðmið víkka þessa sýn. Þau lýsa því sem nemendur eiga að kunna, geta og skilja í lok námsferils. Þau gera ráð fyrir að nám sé ferli þar sem framfarir og hæfni til að beita þekkingu skipta meira máli en stök prófniðurstaða. Þannig verður auðveldara að sjá hvar nemandi stendur og hvernig hann getur tekið næstu skref í náminu.

Fjölbreytt námsmat styður þessa hugsun. Með því að meta nám með ólíkum aðferðum, til dæmis í verkefnum, framsögum eða samvinnu, fæst heildrænari mynd af hæfni nemenda. Samræmd próf og tölulegar einkunnir ná aðeins utan um afmarkað svið og geta ekki lýst fjölbreyttum styrkleikum barna. Það er mikilvægt að hafa í huga að engin ein mæling getur sagt allt sem máli skiptir.

Fræðimenn hafa ítrekað bent á að menntun eigi ekki að byggjast á því að endurtaka staðreyndir heldur að efla hæfni til hugsunar, lausnaleitar og samvinnu. Námið á að virkja nemendur til þátttöku og skapa vettvang þar sem reynsla og sköpun fá að njóta sín. Hæfniviðmið endurspegla þessa sýn og gera námsmat að lifandi ferli frekar en stöðugu prófi.

Það er ekki nauðsynlegt að hafna einkunnum með öllu. Þær geta átt rétt á sér sem hluti af stærra kerfi. En hættan er að þær taki yfir og skilgreini árangur of þröngt. Þegar áherslan snýst fyrst og fremst um tölur hættum við að spyrja hvað nemendur hafi raunverulega lært og hvernig þeir geti beitt þekkingunni.

Námsmat þarf að vera fjölbreytt, gagnsætt og uppbyggilegt. Þannig verður það tæki sem styður bæði nemendur og foreldra í að skilja námsferlið og fylgjast með framförum. Með fjölbreyttum hætti eykst líkurnar á að allir nemendur fái tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.

Við kennarar eigum því ekki að spyrja: „hvað fékkstu á prófi?“ Við eigum að spyrja: „hvað lærðirðu, hvernig geturðu notað það og hvert viltu fara næst?“

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×