Viðskipti innlent

Far­þegum til Ís­lands fjölgaði um 21 pró­sent

Atli Ísleifsson skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair flutti alls 608 þúsund farþega í ágústmánuði sem er eins prósenta aukning miðað við ágúst 2024. Farþegum til Íslands fjölgaði um 21 prósent á milli ára og um fimm prósent á markaðinum frá Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair og segir að tölurnar endurspegli áherslu félagsins á þá markaði.

Í mánuðinum voru 40% farþega á leið til Íslands, 14% frá Íslandi, 42% voru tengifarþegar og 4% ferðuðust innanlands. Sætanýting nam 87.1%. Það sem af er ári hafa 3,4 milljónir farþega flogið með Icelandair, sem eru 8% fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Flugreksturinn gekk vel og var stundvísi 80,9%. Umtalsverður vöxtur var í leiguflugstarfsemi, þar sem seldir blokktímar jukust um 30% en fraktflutningar, mældir í tonnkílómetrum, drógust saman um 4%. Kolefnislosun dróst saman um 4%,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið sé sérstaklega ánægt með talsverða fjölgun farþega til Íslands í takt við aukna áherslu á markaðina til og frá Íslandi.

„Haustið fer vel af stað hjá okkur með fimm nýjum og spennandi áfangastöðum og þar með enn fjölbreyttari ferðamöguleikum fyrir viðskiptavini okkar, bæði í leiðakerfinu okkar og í gegnum samstarfsflugfélög okkar,“ segir Bogi Nils.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×